29. október 2025
30. október 2025
Heimilum á leigumarkaði gæti fjölgað um fimm þúsund fram til 2030
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Gera má ráð fyrir að um 50 þúsund heimili séu á leigumarkaði hér á landi
- Ætla má að heimilum á leigumarkaði gæti fjölgað um fjögur til sex þúsund á næstu fimm árum
- Spáin tekur tillit til stöðu aðfluttra á leigumarkaði og byggir á mannfjöldaspá Hagstofu Íslands
Um 50 þúsund heimili eru á leigumarkaði í dag en þeim gæti fjölgað um fimm þúsund á næstu fimm árum að mati HMS. Matið byggir á nýrri mannfjöldaspá Hagstofu Íslands, meðalheimilisstærð á leigumarkaði og nýrri mælingu HMS á stærð leigumarkaðar þar sem sérstaklega hefur verið tekið tillit til aðfluttra á leigumarkaði.
Um 50 þúsund heimili á leigumarkaði í dag
Stærð leigumarkaðar hér á landi hefur verið verulega vanmetin þar sem búsetumælingar náðu ekki til aðfluttra íbúa nema að takmörkuðu leyti. Nýlega lét HMS framkvæma sérstaka búsetumælingu meðal aðfluttra félagsmanna þriggja stéttarfélaga og í ljós kom að um 74% aðfluttra eru á leigumarkaði hér á landi samanborið við um 15% innfæddra íbúa.
Að teknu tilliti til búsetu aðfluttra íbúa má ætla að um 28% fullorðinna búi í leiguhúsnæði, eða um 85 þúsund manns. Miðað við niðurstöður úr ársfjórðungslegum búsetumælingum má ætla að um 23% barna búi í leiguhúsnæði en um 76% búi í eignarhúsnæði. Heildarfjöldi íbúa á leigumarkaði gæti því verið í kringum 105 þúsund manns í ár.
Samkvæmt árlegri leigumarkaðskönnun HMS fyrir árið 2025 bjuggu að meðaltali 2,1 einstaklingur í hverri leiguíbúð. Þar af leiðandi má gera ráð fyrir að um það bil 50 þúsund heimili séu á leigumarkaði hér á landi í ár.
Fyrra mat HMS á fjölda heimila á leigumarkaði hljóðaði upp á u.þ.b. 35 þúsund íbúðir, en fjölgunin skýrist einna helst af því að fleiri eru á leigumarkaði en áður var talið. Þá er einnig rétt að nefna að fjöldi heimila á leigumarkaði stendur ekki endilega í beinu sambandi við opinbera talningu á fjölda íbúða. Þetta er vegna þess að í sumum tilvikum er verið að leigja húsnæði sem ekki er skráð sem íbúðarhúsnæði auk þess sem í öðrum tilfellum er einungis verið að leigja hluta úr fasteign.
Ætla má að heimili á leigumarkaði gætu orðið allt að 56 þúsund árið 2030
Miðað við nýja mannfjöldaspá Hagstofu Íslands má ætla að heimilum á leigumarkaði gæti fjölgað um 4.400 til 6.000 á næstu fimm árum, líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd.
Spáin byggir á óbreyttu hlutfalli fullorðinna einstaklinga á leigumarkaði eftir aldursbilum út spátímabilið auk þess sem miðað er við óbreytta meðalheimilisstærð á leigumarkaði og að búseta barna dreifist með sambærilegum hætti á milli leigu- og eignarhúsnæðis og í dag.
Hagstofa Íslands gefur út háspá, miðspá og lágspá fyrir mannfjöldaþróun sem leiðir af sér háspá, miðspá og lágspá HMS um stærð leigumarkaðar fram til ársins 2030.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS




