16. apríl 2025
15. desember 2020
Mánaðarskýrsla hagdeildar HMS fyrir desember 2020
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Samkeppni um íbúðir eykst
Samkeppni um íbúðir eykst
Það virðist enn vera mikið líf á fasteignamarkaði um þessar mundir þó að hápunktinum hafi líklegast verið náð í september. Óhætt er að segja að september hafi slegið öll met í umfangi þar sem aldrei áður hefur sést annar eins fjöldi útgefinna kaupsamninga og sló veltan sömuleiðis öll met. Október og nóvember virðast hafa verið aðeins umsvifaminni á höfuðborgarsvæðinu, skv. skammtímavísi hagdeildar[1], þó að fjöldinn sé enn í methæðum. Í nágrenni við höfuðborgarsvæði þá var nóvember hins vegar metmánuður í fjölda eigna sem teknar voru af söluskrá á meðan fjöldinn dróst verulega saman annars staðar á landsbyggðinni.
Mikil eftirspurn eftir húsnæði undanfarna mánuði er farin að hafa töluverð áhrif á fjölda eigna sem eru til sölu á hverjum tíma. Seinustu ár hefur meðalfjöldi eigna til sölu á höfuðborgarsvæðinu verið á bilinu 1.600-2.200 eignir. Við lok fyrra samkomubanns í vor var þessi fjöldi í hámarki eða um 2.200 eignir og hefur síðan þá lækkað niður fyrir 1.200 eignir. Minna framboð á eignum hefur orðið til þess að verð hefur hækkað þónokkuð undanfarna mánuði ásamt því að meðalsölutími eigna hefur dregist saman.
Samkvæmt skoðanakönnun HMS og Zenter frá því í nóvember eru væntingar almennings á þá leið að húsnæðisverð muni halda áfram að hækka á næstu 12 mánuðum, en rúmlega 70% svöruðu með þeim hætti. Mun meiri væntingar voru til verðhækkana á höfuðborgarsvæðinu en þar töldu 76% svarenda að verðið muni hækka á meðan ekki nema 61% á landsbyggðinni svöruðu á sama hátt. Þessar verðhækkanir eru í takti við að aukinn fjöldi íbúða selst nú yfir ásettu verði, það á sérstaklega við höfuðborgarsvæðið. Á höfuðborgarsvæðinu hefur hlutfall eigna sem selst yfir ásettu verði hækkað úr 11% í júní og upp í 21% í október, miðað við þriggja mánaða hlaupandi meðaltal.
Leigumarkaður dregst saman í kjölfarið á Covid-faraldri
Leigumarkaðurinn virðist vera að skreppa saman og hefur leigjendum fækkað hlutfallslega á árinu, einkum ef skoðað er tímabilið fyrir og eftir að faraldurinn skall hér á. Ef meðaltal mælinga á einu ári fyrir COVID-19 er borið saman við meðaltal mælinga á árinu eftir að faraldurinn skall á, sést að það er talsverð breyting á hlutfalli þeirra sem eru á leigumarkaði en þeim fækkar um 3,7 prósentustig. Hlutfall þeirra sem búa í foreldrahúsum eykst sem og hlutfall þeirra sem búa í eigin húsnæði. Því virðast leigjendur vera í auknum mæli að flytja í eigið húsnæði eða foreldrahús.
Hlutfall óverðtryggðra lána af heildarútlánum aldrei verið hærra
Seðlabankinn lækkaði stýrivexti nokkuð óvænt í nóvember sem varð til þess að viðskiptabankarnir þrír lækkuðu allir breytilega vexti sína á óverðtryggðum lánum. Á sama tíma hafa óverðtryggð lán aldrei verið vinsælli en nú. Október var stærsti mánuður bankanna í útlánum hingað til, á sama tíma hafa uppgreiðslur hjá lífeyrissjóðum aldrei verið meiri. Hrein ný útlán hjá bönkunum í október námu 46 ma.kr. á meðan uppgreiðslur lífeyrissjóða voru 9 ma.kr. Því er ekki að undra að skuldbreyting heimilanna úr verðtryggðum lánum yfir í óverðtryggð hafi verið ansi hröð á árinu en hlutdeild óverðtryggðra lána hefur aukist úr 28% í upphafi árs og er nú komin upp í 39%. Í október jókst hlutdeild óverðtryggðra lána um meira en tvö prósentustig á milli mánaða.
[1] Mælikvarðinn mælir hversu margar íbúðir eru teknar úr sölu á hverjum tíma af fasteignir.is
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS