27. apríl 2023

Mánaðarskýrsla hagdeildar HMS fyrir apríl 2023

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

Mán­að­ar­skýrsla hag­deild­ar HMS fyr­ir apr­íl 2023

  • Í febrúar síðastliðnum seldust 611 íbúðir á landinu öllu, samanborið við 413 í janúar. Aukningin nam þó aðeins 50 íbúðum á milli mánaða ef horft er á árstíðabundnar tölur.
  • Í nýlegri íbúðatalningu voru 209 fullgerðar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu sem ekki var búið að flytja í samanborið við 89 íbúðir í hausttalningunni í fyrra.
  • Íbúðum til sölu heldur áfram að fjölga. Nú eru 2.770 íbúðir til sölu á landinu öllu samanborið við 2.323 í upphafi mars.
  • Nú hafa allir bankarnir brugðist við síðustu stýrivaxtahækkun með því að hækka breytilega óverðtryggða íbúðalánsvexti um 1 prósentustig til jafns við hækkun Seðlabankans. Nú er greiðslubyrði óverðtryggðra lána um 73.000 kr. á hverjar 10 m.kr. teknar að láni samanborið við 68.200 kr. í mars.
  • Hrein ný íbúðalán námu 6,8 ma. kr. í febrúar og hafa þau ekki verið minni síðan í mars 2016, sem endurspeglar minnkandi veltu á fasteignamarkaði. Þar af voru hrein ný óverðtryggð íbúðalán neikvæð um 350 m. kr. en síðast voru þau neikvæð í janúar 2015 vegna leiðréttingarinnar svokölluðu. Það virðist því hafa færst í aukana að heimili séu að færa sig úr óverðtryggðum lánum yfir í verðtryggð.
  • Í febrúar síðastliðinn urðu 43 fyrirtæki í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð gjaldþrota og hafa þau ekki verið fleiri síðan 2011. Í raun var þetta aðeins í annað skipti síðan þá sem þau voru fleiri en 30 en það voru þau einnig nú í mars þegar gjaldþrotin voru 35. Sé miðað við leitni (6 mánaða hlaupandi árstíðaleiðrétt meðaltal) hafa gjaldþrot í greininni ekki verið fleiri síðan 2012.
  • Ríflega fjórðungur allra íbúða með byggingarár 2022 voru byggðar í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins.

Áfram einkennist fasteignamarkaðurinn af nokkurri ró samanborið við síðustu ár. Þrátt fyrir að vextir hafi haldið áfram að hækka er ekki að sjá að íbúðamarkaðurinn sé að kólna meira en hann hafði þegar gert. Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,5% á milli mánaða í mars, viðskiptum hefur fjölgað en aðrir mælikvarðar eru nokkuð stöðugir.

Íbúða­verð nokk­uð stöðugt

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,5% í mars frá fyrri mánuði miðað við vísitölu íbúðaverðs. Þar af hækkuðu íbúðir í fjölbýli um 1,0% en sérbýli um 3,4%. Þá hækkaði íbúðaverð í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarssvæðisins um 3,2% á milli mánaða og annars staðar á landsbyggðinni um 1,2%.

Óvarlegt er væri að draga of miklar ályktanir frá breytingum á milli einstakra mánaða. Frá því í júlí á síðasta ári hefur íbúðaverð verið nokkuð stöðugt að nafvirði. Þá mældist vísitala íbúðaverðs 252,4 fyrir höfuðborgarsvæðið stig en hún mælist nú í mars 255,6. Raunverð íbúðarhúsnæðis hefur því lækkað sem nemur verðbólgu eða um um það bil 3,4% síðan í júlí 2022.

Ung­ir kaup­end­ur ekki færri síð­an 2014

Ungir kaupendur, 30 ára og yngri, voru 26,5% af heildarfjölda kaupenda í fasteignaviðskiptum á höfuðborgarsvæðinu á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 29,2% á 4. ársfjórðungi 2022. Á tímum COVID19 var hlutur ungra kaupenda óvenju hár og náði hann hámarki á þriðja ársfjórðungi 2021 í 35,4%. Á árunum 2009-2018 var hlutfall ungra kaupenda hins vegar yfirleitt lægra en það er nú.

Hlutfall ungra kaupenda virðist hreyfast í takt við umsvif á fasteignamarkaði þannig að ungir kaupendur eru hlutfallslega fleiri þegar fleiri viðskipti eiga sér stað. Fjöldi ungra fasteignakaupenda sveiflast því talsvert meira en hlutdeild þeirra. Þannig voru tæplega 513 ungir fasteignakaupendur á fyrsta ársfjórðungi þessa árs á höfuðborgarsvæðinu en ríflega 1.300 á þriðja ársfjórðungi árið 2021.

Mánaðarskýrsluna í heild sinni má nálgast hér

Mánaðarskýrsluna í heild sinni má nálgast hér

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS