Mánaðarskýrsla hagdeildar HMS fyrir júní 2022

Fasteignamat íbúða á höfuðborgarsvæðinu hækkaði að meðaltali um 23,6% á milli ára og hefur hækkunin ekki verið meiri að minnsta kosti síðan fyrir hrun.   

  • Á höfuðborgarsvæðinu hækkaði sérbýli að jafnaði um 26% en íbúðir í fjölbýli um 21,7%.  
  • Í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins hækkaði sérbýli að jafnaði um 28,4% en íbúðir í fjölbýli um 22,7%  
  • Meðalsölutími á íbúðum sem seldar voru á höfuðborgarsvæðinu í apríl var 34,7 dagar og hefur ekki mælst jafn stuttur frá upphafi mælinga. 
  • Meðalkaupverð íbúða á höfuðborgarsvæðinu í apríl var 76,9 m.kr. en í apríl í fyrra var það 60,6 m.kr. Íbúðir í fjölbýli seldust að meðaltali á 67,4. m.kr. en íbúðir í sérbýli á 104,9 m.kr.  
  • Bankarnir hækkuðu óverðtryggða breytilega vexti um 0,7-1 prósentustig sem viðbrögð við 1 prósentustigshækkun stýrivaxta. 
  • Verðtryggðir vextir halda áfram að lækka og eru nú allt frá 1,35% hjá bönkunum og frá 1% hjá lífeyrissjóðum.  
  • Heimilin búa að góðu veðrými. Árið 2010 skuldaði fólk að jafnaði 45,7% af verðmæti íbúða sinna miðað við fasteignamat en árið 2020 var hlutfallið komið niður í 28,2%.  

Eftirspurnarþrýstingur enn mikill en viðskiptum fækkar 

Aðeins virðist vera tekið að róast á fasteignamarkaði ef miðað er við fjölda kaupsamninga í apríl sl. Alls voru gefnir út 699 kaupsamningar um íbúðarhúsnæði sem gera 752 þegar leiðrétt er fyrir reglubundnum árstíðarsveiflum. Svo fáir hafa kaupsamningar ekki verið í einum mánuði síðan í maí 2020 en þá hafði tímabundið dregið úr umsvifum á íbúðamarkaði í upphafi samkomutakmarkanna. 

 

Enn virðist þó mikill eftirspurnarþrýstingur vera til staðar. Þrátt fyrir minnkandi umsvif var met slegið í apríl, annan mánuðinn í röð, þegar 54% íbúða á landinu seldust yfir ásettu verði.  

Á höfuðborgarsvæðinu seldust 65% íbúða í fjölbýli yfir ásettu verði og 53% sérbýla. Á landsbyggðinni seldust 48% íbúða í fjölbýli og 32% sérbýla yfir ásettu verði. Í öllum tilfellum er um met að ræða. 

Leiguverð sem hlutfall af launum aldrei mælst lægra 

Leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hefur farið lækkandi á föstu verðlagi frá því í byrjun árs. Nú er leiguverðið orðið lægra en fyrir ári síðan og hefur það ekki mælst lægra að raunvirði síðan í ágústmánuði 2017. 

Leiguverð á höfuðborgarsvæðinu í apríl sem hlutfall af launum er það lægsta sem mælst hefur en gögnin ná aftur til byrjun árs 2013. Hlutfallið náði hámarki í lok árs 2018 en mælist nú 15,6% lægra en það gerði þá. 

Mánaðarskýrsluna í heild sinni má nálgast hér: