17. janúar 2025
15. janúar 2025
Kynning á verkefnum Asks - mannvirkjarannsóknarsjóðs
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
HMS boðar til fundar þar sem opnuð verður vefsíða með kynningum á verkefnum styrkþega Asks - mannvirkjarannsóknasjóðs. Nokkrir styrkþega munu kynna niðurstöður rannsókna sinna. Fundurinn verður haldinn í húsakynnum HMS þriðjudaginn 28. janúar og hefst kl. 14:00.
Askur – mannvirkjarannsóknasjóður veitir styrki til mannvirkjarannsókna með áherslu á aukna þekkingu, umbætur og nýsköpun til að mæta samfélagslegum áskorunum mannvirkjagerðar. Áherslur sjóðsins snúa einkum að samfélagslegum áskorunum í mannvirkjaiðnaði, svo sem rakaskemmdum í mannvirkjum og aðgerðum til að lækkunar kolefnisspors.
Veittir hafa verið styrkir í þrjú styrkár 2021-2023 til 95 verkefna, sem mörg hver eru framhaldsverkefni. Opnuð verður vefsíða með niðurstöðum og kynningum á 38 verkefnum hjá Aski, sem mörg hafa hlotið framhaldsstyrki og eru í raun 62 styrkir á bakvið þessar 38 vefsíður með niðurstöðum verkefna. 290 milljónir hafa verið veittar fyrstu þrjú styrkárin.
Sjóðurinn treystir stoðir byggingariðnaðarins í samstarfi við háskólasamfélag og atvinnulíf. Með stofnun Asksins leitast stjórnvöld við að opna opinbert styrkjaumhverfi fyrir fleiri aðila úr háskólasamfélagi og atvinnulífi og einnig að stuðla að auknu samstarfi við erlenda rannsóknaraðila. Áhersluþættir Asks eru byggingargallar, raki og mygla, byggingarefni, orkunýting og losun, tækninýjungar og gæði.
Markviss skref hafa verið stigin hérlendis í átt að umhverfisvænni mannvirkjagerð og mikilvægast er að nefna Vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð sem inniheldur 74 aðgerðir til að ná loftslagsmarkmiðum stjórnvalda og var stofnun Asks ein þeirra aðgerða. Flest verkefna Asks hafa umhverfislega skírskotun og mörg þeirra vinna að markmiðum Vegvísis að vistvænni mannvirkjagerð.
Úthlutun ársins 2024 þar sem 185 milljónir eru til úthlutunar er væntanleg á næstu vikum og verður kynnt betur síðar.
„HMS leggur mikla áherslu á að styðja við Asks – verkefnin með útgáfu á niðurstöðum þeirra, miðlun og viðburðahaldi. Styrkhafar hafa skilað áhugaverðum niðurstöðum og dýpkað faglega umræðu um mannvirkjamál. Með þessari útgáfu styðjum við aukna þekkingu í mannvirkjaiðnaði.“ segir Hermann Jónasson forstjóri HMS.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS