4. desember 2024
29. nóvember 2024
Íbúðauppbygging á Norðurlandi vestra ekki í takt við þörf
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Samkvæmt húsnæðisáætlunum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra er fjöldi íbúða sem nú eru í byggingu ekki nægur til að mæta áætlaðri íbúðaþörf á næstu árum. Þetta kom fram á opnum fundi sem HMS stóð fyrir á Sauðárkróki í samstarfi við Tryggð byggð og Samtök iðnaðarins.
Á fundinum var rætt um íbúðauppbyggingu og framtíðarhorfur á Norðurlandi vestra. Niðurstöður byggja annars vegar á upplýsingum úr húsnæðisáætlunum sveitarfélaga í landshlutanum og hins vegar á talningu íbúða í byggingu sem HMS framkvæmdi í september síðastliðinn.
Þörf á 33 íbúðum á ári á Norðurlandi vestra
Öll sveitarfélög á Norðurlandi vestra samþykktu húsnæðisáætlun fyrir árið 2024. Samkvæmt miðspá áætlananna er reiknað með að íbúum á svæðinu fjölgi um 290 á næstu fimm árum og um 581 á næstu tíu árum. Til samanburðar var miðspá síðasta árs fyrir sama tímabil (næstu 5 ár) 155 manns sem samsvarar um 87% aukningu í íbúaspá milli ára. Raunveruleg fólksfjölgun á tímabilinu 2023 til 2024 á svæðinu reyndist vera 68 manns sem er í samræmi við áætlanir mannfjöldaspá.
Sveitarfélög í landshlutanum spá því að þörf verði fyrir 200 íbúðir á næstu fimm árum til þess að mæta þörf fyrir ný heimili og 329 íbúðir á næstu tíu árum, sem jafngildir um 33 íbúðum árlega.
Fullbúnar íbúðir á Norðurlandi vestra það sem af er árinu eru samtals 15 talsins og samkvæmt talningu HMS á íbúðum í byggingu má gera ráð fyrir því að einungis 20 nýjar fullbúnar íbúðir muni koma inn á fasteignamarkað árið 2025 og 7 íbúðir árið 2026. Því er útlit fyrir að bæta þurfi í uppbyggingu nýrra íbúða til þess að halda í við fólksfjölgun.
Talning HMS sýnir jafnframt að fjöldi íbúða í byggingu hefur lítið breyst á undanförnum árum því í september 2024 voru 44 íbúðir í byggingu, samanborið við 43 íbúðir á sama tíma árið áður. Með hliðsjón af því að byggingartími á hverri íbúð sé um tvö ár, ætti að vera nær 66 íbúðir í byggingu á hverjum tíma til að fullnægja íbúðaþörf í landshlutanum.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS