19. september 2024

Húsnæðisstuðningur hins opinbera nemur 0,73 prósent af landsframleiðslu

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Heildarumfang húsnæðisstuðnings hins opinbera nam 32 milljörðum króna í fyrra, sem jafngildir 0,73 prósent af landsframleiðslu
  • Húsnæðisstuðningur til leigjenda hefur aukist nokkuð á síðustu árum á meðan húsnæðisstuðningur til eigenda hefur farið minnkandi
  • Stuðningur til leigjenda nam 18 milljörðum króna í fyrra, á meðan stuðningur til eigenda nam 14 milljörðum króna

Heildarumfang húsnæðisstuðnings hins opinbera nam 32 milljörðum króna í fyrra, sem jafngildir 0,73 prósent af landsframleiðslu, samkvæmt útreikningum HMS. Þar vógu helst húsnæðisbætur og sértækur húsnæðisstuðningur frá ríkinu, auk skattfrjálsrar ráðstöfunar séreignarsparnaðar fyrir íbúðaeigendur. Stuðningur til leigjenda nam 18 milljörðum króna, á meðan stuðningur til eigenda nam 14 milljörðum króna.

Markmiðið með húsnæðisstuðningi fer saman við markmið laga um húsnæðismál um að stuðla að öryggi og jafnræði í húsnæðismálum og hann er mikilvægur þáttur í húsnæðisstefnu stjórnvalda hverju sinni.

Næst minnsti stuðn­ing­ur frá ár­inu 2003

Húsnæðisstuðningur hins opinbera er fjölbreyttur og eðli hans og samsetning hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum og áratugum. Niðurbrot á húsnæðisstuðningi hins opinbera í átta flokka má sjá á mynd hér að neðan. Þar af er stuðningur til eigenda í fimm flokkum, en þar eru meðtaldar niðurgreiðslur vaxta á íbúðalánum, vaxtabætur, hlutdeildarlán, leiðréttingin og skattfrjáls ráðstöfun séreignarsparnaðar. Stuðningur til leigjenda er svo í þremur flokkum: húsnæðisbætur frá ríkinu, húsnæðisstuðningur sveitarfélaga og stofnframlög ríkis og sveitarfélaga vegna almennra íbúða. Frá árinu 2003 hefur húsnæðisstuðningur hins opinbera, numið að jafnaði um 1,12 prósent af landsframleiðslu.

Líkt og myndin sýnir nam húsnæðisstuðningurinn 0,73 prósentum af landsframleiðslu í fyrra, en á síðustu 20 árum hefur hann aðeins verið minni árið 2022. Stærstu stuðningsaðgerðirnar eru húsnæðisbætur frá ríkinu og skattfrjáls ráðstöfun séreignarsparnaðar, en samanlagt umfang þessara aðgerða nemur um 20 milljörðum króna.

Stuðn­ing­ur til eig­enda fer minnk­andi

Frá árinu 2017 hefur heildarfjárhæð húsnæðisstuðnings ekki breyst mikið að raunvirði en samsetning hans hefur breyst. Á síðustu sjö árum hefur húsnæðisstuðningur hins opinbera til eigenda farið minnkandi, en hann náði hámarki um miðjan síðasta áratug þegar stuðningur vegna leiðréttingarinnar nam tugum milljarða króna. Á síðustu árum hefur stuðningur hins opinbera til eigenda aðallega verið í gegnum skattfrjálsa ráðstöfun séreignarsparnaðar, en aðrar leiðir, líkt og niðurgreiðsla vaxta á íbúðalánum og vaxtabætur, hafa minnkað töluvert að umfangi.

Húsnæðisstuðningur til leigjenda hefur aftur á móti aukist nokkuð á síðustu árum, en hann nam 18 milljörðum króna í fyrra, samanborið við 14 milljarða króna stuðningi til eigenda.

Frá árinu 2018 hefur húsnæðisstuðningur til leigjenda verið meiri að umfangi en húsnæðisstuðningur til eigenda. Þannig hefur samsetning húsnæðisstuðnings tekið breytingum síðustu ár og  stuðningurinn farið meira til leigjenda en minna til eigenda.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS