12. september 2025
19. desember 2024
HMS og sveitarfélög vinna saman að bættum upplýsingum um nýtingu íbúða
HMS hefur fengið mikil viðbrögð frá sveitarfélögum vegna áætlaðs fjölda tómra íbúða á Íslandi sem fram kom í nýjustu mánaðarskýrslu stofnunarinnar. Telja sum sveitarfélög að fjöldinn sé ofáætlaður á meðan önnur sveitarfélög telja að hann sé vanáætlaður. HMS mun bregðast við ábendingunum með því að efna til nánari könnunar á því hvernig notkun íbúðanna sé háttað.
Farið verður nánar yfir þær íbúðir þar sem engar upplýsingar liggja fyrir um langtímabúsetu til að áætla betur nýtingu þeirra. Í einhverjum tilfellum getur verið um ofmat á tómum íbúðum að ræða, þar sem í sumum þeirra gæti til dæmis verið fólk í langtímaleigu án skráðs leigusamnings. Í öðrum tilfellum getur verið um vanmat að ræða, þar sem HMS áætlar íbúð á hverja fjölskyldu sem er ekki með skráð lögheimili í íbúð, en sumar þessara fjölskyldna gætu búið í atvinnuhúsnæði eða sumarhúsum.
Kortlagningin mun fara fram í samstarfi við sveitarfélögin á hverjum stað. Sveitarfélögin sem hafa þegar lýst yfir áhuga á samstarfi við HMS í þessum efnum eru Akureyrarbær, Skagafjörður, Mýrdalshreppur og Norðurþing. Í kjölfarið mun HMS svo birta endurbætta tölfræði um nýtingu íbúða.
Um er að ræða nýja greiningu sem HMS hefur tekið í gagnið til að áætla nýtingu íbúða en í mánaðarskýrslu stofnunarinnar kom fram mat á „tómum“ íbúðum, sem eru íbúðir sem HMS telur að séu ekki nýttar til langtímabúsetu. Þeirra á meðal eru nýjar og óseldar íbúðir, en einnig gætu þar verið um að ræða íbúðir sem nýttar eru til skammtímaútleigu og orlofsíbúðir þar sem eigendur hafa ekki fasta búsetu. Samkvæmt matinu eru yfir 10 þúsund íbúðir á landinu öllu sem falla undir þessa skilgreiningu, en það jafngildir 6,5 prósentum af heildarfjölda fullbúinna íbúða.
Það er hluti af þróun nýrra mælikvarða eins og þessa að skoða tölurnar í samhengi við fleiri gögn til að hægt sé að átta sig á undirliggjandi ástæðum fyrir þeim niðurstöðum sem mælingarnar gefa. HMS hvetur öll sveitarfélög sem telja hugsanlegt að tölur um tómar íbúðir séu ekki í samræmi við raunverulega nýtingu húsnæðisins til að koma gögnum á framfæri við stofnunina.