23. september 2025

Hlutfall fullbúinna íbúða aldrei verið hærra í talningum HMS

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Aukin virkni mælist á byggingamarkaði og færri íbúðir eru á sama framvindustigi á milli talninga
  • Áfram fækkar íbúðum í byggingu á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur
  • HMS gerir ráð fyrir að 3.100-3.400 íbúðir verði fullbúnar í ár

Alls voru 7.566 íbúðir í byggingu í september og voru þær 5,3% fleiri en í marsmánuði. Þetta kemur fram í niðurstöðum úr nýjustu talningum HMS á íbúðum í byggingu, sem nánar verða kynntar á opnum fundi kl. 12 í dag. Lesa má niðurstöður talningarinnar með því að smella á hnappinn hér að neðan.

Niðurstöður úr septembertalningu HMS

Samkvæmt greiningu HMS stafar fjölgun íbúða í byggingu á milli talninga fyrst og fremst af  uppsöfnun fullbúinna íbúða sem ekki eru teknar í notkun.  Að þeim frátöldum eru álíka margar íbúðir í virkri uppbyggingu í september og í síðustu talningum.

Reykja­vík aft­ur orð­in leið­andi í upp­bygg­ingu

Uppbygging íbúða í Reykjavík eykst þó nokkuð og er nú 26% meiri en í síðustu talningu. Reykjavík er þannig orðin leiðandi á höfuðborgarsvæðinu með fleiri íbúðir í byggingu en öll önnur sveitarfélög á svæðinu samanlagt. Um 40% allra nýrra framkvæmda á landinu öllu, sem fóru af stað á milli talninga, voru í Reykjavík. Þetta markar breytingu frá fyrri talningum þar sem uppbygging í borginni hefur verið hlutfallslega lítil m.t.t. íbúafjölda.

Fjöldi nýrra framkvæmda annarstaðar á höfuðborgarsvæðinu dróst hins vegar lítillega saman, um 4%, þar sem fækkun var í Kópavogi og á Seltjarnarnesi. Nýjum framkvæmdum fjölgaði þó lítillega í Garðabæ, en í Hafnafirði og Mosfellsbæ stóð fjöldinn u.þ.b. í stað. Á sama tíma dregur úr íbúðauppbyggingu á landsbyggðinni.

Fullbúnar nýbyggðar íbúðir, á framvindustigi 7, teljast nú alls 1.002 talsins. Til samanburðar eru það 42% fleiri íbúðir en á sama stigi fyrir ári síðan þegar 606 íbúðir voru á því stigi. Meira en helmingi fleiri íbúðir standa því ónýttar  en á sama tíma í fyrra. Einnig hefur orðið veruleg aukning á fjölda íbúða á framvindustigi 5, sem eru tilbúnar til innréttinga, þar sem nú teljast 1.175 íbúðir, eða 17% fleiri en í síðustu talningu.

Þetta sýnir að fjöldi íbúða sem annaðhvort eru fullbúnar eða nánast fullbúnar án þess að vera teknar í notkun hefur aukist verulega og bendir margt til að birgðasöfnun á markaði muni halda áfram að vaxa á næstunni.

Framkvæmdum þar sem framvinda helst óbreytt á milli talninga heldur á fram að fækka eftir að hafa aukist verulega í kjölfar hraðra vaxtahækkana sem hófust árið 2022. Stærstur hluti íbúðanna eiga sér eðlilegar skýringar á að vera á sama framvindustigi á milli talninga og af þeim 1.112 íbúðum sem þar mælast eru einungis um 200 af þeim sem taldar eru vera í stoppi.

Miðað við fjölda íbúða í virkum framkvæmdum og áætluð verklok þeirra má gera ráð fyrir að heildarfjöldi fullbúinna íbúða árið 2025 verði á bilinu 3.100 - 3.400 talsins. Árið 2026 er áætlað að 2.800-3.200 íbúðir verði kláraðar, en árið 2027 gæti fjöldinn numið 2.600-3.400. Óvissan er þó meiri um árið 2027 þar sem framkvæmdir sem hafa áhrif á niðurstöðuna hafasumar hverjar ekki hafist, en áætlað er að nýjar framkvæmdir verði með sambærilegum hætti og þær mælast nú.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS