16. apríl 2025
25. maí 2021
Gríðarleg eftirspurn eftir íbúðum þrýstir upp fasteignaverði
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Nýútgefnar tölur Þjóðskrá um fjölda kaupsamninga í apríl gefa til kynna að töluverður samdráttur hafi verið í kaupsamningum milli mars og apríl. Gögnin benda til þess að um 30% samdráttur hafi verið í fjölda kaupsamninga milli mánaða. Þó ber að taka því með fyrirvara sökum þess að mars var algjör metmánuður í fjölda kaupsamninga en þeir töldu um 1.671 talsins, en til samanburðar voru þeir 925 í mars í fyrra, en í apríl seinastliðnum voru þeir 1.157[1]. Því er ekki að undra að það hafi verið færri kaupsamningar í apríl miðað við mars. Þróunina frá árinu 2006 má sjá á meðfylgjandi mynd.
Nýútgefnar tölur Þjóðskrá um fjölda kaupsamninga í apríl gefa til kynna að töluverður samdráttur hafi verið í kaupsamningum milli mars og apríl. Gögnin benda til þess að um 30% samdráttur hafi verið í fjölda kaupsamninga milli mánaða. Þó ber að taka því með fyrirvara sökum þess að mars var algjör metmánuður í fjölda kaupsamninga en þeir töldu um 1.671 talsins, en til samanburðar voru þeir 925 í mars í fyrra, en í apríl seinastliðnum voru þeir 1.157[1]. Því er ekki að undra að það hafi verið færri kaupsamningar í apríl miðað við mars. Þróunina frá árinu 2006 má sjá á meðfylgjandi mynd.
Að sama skapi þá geta tölur um fjölda kaupsamninga breyst afturvirkt eftir því sem fleiri samningum er þinglýst, því geta tölur um fjölda í apríl hækkað. Það virðist einmitt vera tilfellið með fjöldatölur í mars þar sem upphaflega kom fram að kaupsamningar væru 1.488 en nú hefur sá fjöldi verið uppfærður og hækkað upp í 1.671. Það er ansi mikil breyting miðað við það sem var upphaflega gefið út og því ljóst að marsmánuður var algjör sprenging í fjölda kaupsamninga. Fyrra met í fjölda kaupsamninga var slegið í september 2020 með 1.438 samningum en mars 2021 slær því rækilega við og er með 16% fleiri samninga.
Þrátt fyrir að kaupsamningum hafi fækkað töluvert milli mánaða þá hafa þeir aldrei verið fleiri í apríl mánuði eins og nú seinast. Myndin hér að neðan sýnir fjölda kaupsamninga eftir mánuðum hvers árs. Frá því í september í fyrra og fram í apríl hefur verið slegið met í hverjum mánuði í fjölda kaupsamninga miðað við árstíma.
Það virðist því vera að ekkert lát sé á eftirspurn eftir íbúðum og hefur verið aldrei verið meira að gera á fasteignamarkaði en seinasta ár. Hins vegar voru verðhækkanir framan af fremur hóflegar og það er ekki fyrr en seinustu tvo mánuði sem við erum að sjá töluverðar hækkanir milli mánaða. Verðhækkanir í mars og apríl benda til þess að skortur á íbúðum sé farin að skila sér í miklum verðhækkunum, eins og hagdeild HMS kom inn á í nýlegri frétt. Verðhækkanirnar í mars og apríl eru mun meiri en við höfum séð á milli mánaða í langan tíma, en hækkunin var 3,3% í mars og 2,7% í apríl.
Þessar miklu verðhækkanir á stuttum tíma eru ákveðið áhyggjuefni og gætu gefið til kynna að bóla á fasteignamarkaði sé að myndast. Seðlabankinn hefur áhyggjur af áhrifum fasteignaverðshækkana á verðbólgu og er nú þegar farin að bregðast við með hækkun á stýrivöxtum í tilraun til að slá aðeins á þenslu á fasteignamarkaði. Seðlabankinn hækkaði stýrivexti í fyrsta sinn í síðustu viku frá árinu 2018 upp í 1%. Hækkun vaxta á fasteignalánum leiðir til aukinnar greiðslubyrði fyrir heimilin ásamt því að hámarks lán til lántakenda lækkar. Því eru þessar aðgerðir til þess fallnar að stemma stigu við hækkun fasteignaverðs og slá á þenslu.
[1] Athugið að hér eru sumarhús og atvinnuhúsnæði ekki talin með í fjölda en þær tegundir af eignum eru taldar í gögnum sem koma fram á vef Þjóðskrár.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS