28. febrúar 2024

Fyrirtækjum fjölgar í byggingariðnaði þrátt fyrir fleiri gjaldþrot

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

Umfang byggingargeirans jókst í fyrra, þrátt fyrir að gjaldþrotum í greininni hafi fjölgað töluvert. Þetta kemur fram þegar tölur Hagstofu um nýskráningar fyrirtækja í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð eru skoðaðar í samhengi við gjaldþrotatölur.

Ekki jafn­mörg gjald­þrot frá ár­inu 2011

Eins og kom fram í nýjustu mánaðarskýrslu hagdeildar HMS  fjölgaði gjaldþrotum fyrirtækja í byggingariðnaði um 243 prósent frá fyrra ári. Leita þarf aftur til ársins 2011 til að finna viðlíka fjölda gjaldþrota í greininni en það ár urðu 328 fyrirtæki í geiranum gjaldþrota. Sjá má fjölda gjaldþrota í greininni frá árinu 2008 á mynd hér að neðan.

Gjaldþrotum í byggingariðnaðinum hefur fjölgað á sama tíma og fjárhagsleg starfsskilyrði fyrirtækja hafa versnað mikið með hækkandi vöxtum.  Þar að auki hefur lengri sölutími íbúða haft slæm áhrif á fjárhagslega stöðu fyrirtækja í byggingariðnaði.

Ný­skrán­ing­ar eru fleiri en gjald­þrot

Fyrirtækjum í byggingariðnaði hefur hins vegar ekki fækkað vegna fleiri gjaldþrota. Þvert á móti fjölgaði þeim í fyrra vegna metfjölda nýskráninga. Samkvæmt tölum Hagstofu fjölgaði fyrirtækjum í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð um rúmlega 300 í fyrra, en 302 fyrirtæki urðu gjaldþrota og 618 fyrirtæki voru nýskráð sama ár.

Myndin hér að neðan sýnir nýskráningar byggingarfyrirtækja að frádregnum gjaldþrotum frá árinu 2009. Frá árinu 2013 hafa nýskráningar verið fleiri en gjaldþrot sem bendir til þess að fyrirtækjum hafi fjölgað að jafnaði í greininni á milli mánaða. 

Mest fjölgaði fyrirtækjum árið 2022, en þá voru nýskráningar umfram gjaldþrot alls 527 talsins. Þrátt fyrir að munurinn hafi verið minni í fyrra er hann þó töluverður í sögulegu samhengi þar sem nýskráningar umfram gjaldþrot hafa að meðaltali verið 165 á hverju ári frá 2009.

Vís­bend­ing um mikla virkni í grein­inni

Fjölgun fyrirtækja í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð bendir til þess að töluverð virkni hafi verið í greininni í fyrra, þrátt fyrir samdrátt í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Þó gæti fjölgunin einnig stafað af breyttu rekstrarformi fyrirtækja í greininni ef verktakar hafa í auknum mæli stofnað ný fyrirtæki til að halda utan um einstök verkefni.

Hins vegar sýna tölur Hagstofu að hlutfall gjaldþrota fyrirtækja í greininni sem hófu rekstur sama ár hefur ekki tekið stórum breytingum á milli ára. Þetta gefur vísbendingu um að fjölgun nýskráninga sé ekki einungis tilkomin vegna fjölgunar fyrirtækja sem eru stofnuð vegna einstakra byggingarverkefna.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS