14. október 2025
14. október 2025
Byggjum grænni framtíð kynnt á Degi Grænni byggðar
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Metþátttaka var á Degi Grænni byggðar sem fór fram í Iðnó þann 8. október. Þema dagsins var velferð notenda í byggðu umhverfi og voru flutt fjölmörg áhugaverð erinda um hvernig skipulag, hönnun, framkvæmd og rekstur mannvirkja geta stutt heilsu, aðgengi og lífsgæði, samhliða minni umhverfisáhrifum.
Elín Þórólfsdóttir, teymisstjóri starfsumhverfi mannvirkjagerðar hjá HMS, kynnti Byggjum grænni framtíð og nýjar aðgerðir í aðgerðaráætluninni, samtals 90 aðgerðir. Byggjum grænni framtíð er samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs sem HMS leiðir. Markmiðið er að styðja við mannvirkjageirann í átt að minni losun, bættri auðlindanýtingu og aukinni velferð notenda með mælanlegum aðgerðum, skýrum viðmiðum og fræðslu.
Græna skóflan 2025
Í lok dags var Græna skóflan afhent. Háteigsvegur 59 hlaut verðlaunin. Í mati dómnefndar segir m.a.:
„Verkefnið sýndi fram á að jafnvel innan núverandi reglu- og lagaumhverfis er auðveldlega hægt að draga úr kolefnisspori og endurnýta ýmis byggingarefni samhliða alhliða hönnunargrunnreglum á farsælan hátt. Sé Háteigsvegur borin saman við sambærilega byggingu, er kolefnisspor verkefnisins um 50% lægra. Háteigsvegur leggur áherslu á aðgengi fyrir alla, hagkvæmni, notkun hágæða og heilnæmra efna, auk þess að skapa heimilislegt umhverfi.“
Græna skóflan fyrir endurbætur 2025
Í fyrsta sinn var veitt Græna skóflan fyrir endurbætur. Stöng í Þjórsárdal er fyrsti handhafi viðurkenningarinnar. Í mati dómnefndar segir m.a.:
„Menningarleg og söguleg þýðing þessa mannvirkis sameinast framtíðarsýn, þegar horft er til umhverfislegra þátta sjálfbærnis og má þá nefna atriði eins og að endurnýta eins mörg byggingarefni og hluti og hægt er en núverandi burðavirki er frá 1957, hanna bygginguna þannig að auðvelt sé að taka hana niður, velja heilnæm og endurvinnanleg efni og einnig að hugsa um að draga úr orkufari í allri notkun byggingarinnar.“
Erindi dagsins sýndu hvernig heildstæð nálgun, frá skipulagi og hönnun til efnisvals, innivistar og aðgengis geta styrkt heilsu og vellíðan notenda ásamt því að draga samhliða úr umhverfisáhrifum.
Dagur Grænni byggðar er árlegur vettvangur þekkingar, samtals og hvatningar fyrir alla sem koma að skipulagi, hönnun, byggingu og rekstri mannvirkja. Markmiðið er að deila reynslu og hrinda í framkvæmd lausnum sem draga úr umhverfisáhrifum og auka gæði byggðs umhverfis.
Nánari upplýsingar um Byggjum grænni framtíð og aðgerðaráætlunina á vef bgf.is
Myndir af viðburðinum
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS