10. október 2025

Íbúðakaupum með hlutdeildarlán synjað vegna hás greiðslubyrðarhlutfalls

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • 15 umsóknir um hlutdeildarlán voru samþykktar í september og var heildarfjárhæð veittra lána um 208 milljónir króna 
  • Jákvætt greiðslumat dugir ekki til og viðmið um greiðslubyrði er helsta ástæða synjunar á lánveitingu 
  • Opið er fyrir umsóknir um hlutdeildarlán til og með 16. október næstkomandi 

HMS hefur lokið yfirferð á umsóknum sem bárust vegna hlutdeildarlána í september. Af 28 umsóknum uppfylltu 15 þeirra skilyrði fyrir veitingu láns. Heildarfjárhæð veittra lána nam um 208 milljónir króna, en til úthlutunar voru 333 milljónir króna. 

Flest lán í september voru veitt vegna kaupa á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu, einkum í Hafnarfirði. Utan höfuðborgarsvæðisins voru veitt lán vegna kaupa í Sveitarfélaginu Vogum, Reykjanesbæ og á Selfossi. Engin lán voru veitt vegna kaupa á landsbyggðinni utan vaxtarsvæða að þessu sinni. 

Fjöldi og fjárhæðir veittra hlutdeildarlána í september má sjá í töflu hér fyrir neðan. 

Tæp­lega helm­ing­ur af um­sókn­um ver­ið sam­þykkt­ar í ár 

Það sem af er ári hefur HMS borist 236 umsóknir um hlutdeildarlán frá alls 352 umsækjendum. Af innsendum umsóknum hafa einungis 117 þeirra verið samþykktar, þar sem umsækjendur uppfylltu öll skilyrði lánanna. Er það tæplega helmingur af umsóknum ársins fram til þessa. 

Tak­mark­að­ir mögu­leik­ar fyr­ir ein­stak­linga 

Barnlausir einstaklingar eiga takmarkaða möguleika á að nýta sér 20% hlutdeildarlán til íbúðarkaupa en hlutfall samþykktra umsókna hefur verið lægst hjá þeim hópi. Þetta skýrist bæði af tekjumörkum úrræðisins og skilyrðum um hámarksgreiðslubyrðahlutfall kaupenda. 

Þessi takmörkun á sérstaklega við þegar kaupverð fasteignar er hærra en 55 milljónir króna, óháð því hvort fasteignalán sem nemur að lágmarki 75% kaupverðs sé verðtryggt eða óverðtryggt. Framboð á nýbyggingum sem kosta undir 55 milljónum króna er þó afar takmarkað, sér í lagi á höfuðborgarsvæðinu. 

Þegar horft er til hjóna og sambúðarfólks, þar sem tveir fullorðnir eru skráðir á sama heimili, er staðan önnur. Hjón og sambúðarfólk án barna standast greiðslumat og skilyrði um hámarksgreiðslubyrði fyrir verðtryggðu fasteignaláni vegna kaupa á íbúð að verðmæti allt að 70 milljónum króna, miðað við hámarkstekjur úrræðisins. Ef börn eru á heimilinu aukast möguleikar á nýtingu hlutdeildarlána því tekjumörk heildartekna heimilisins hækka. Möguleikinn á að taka óverðtryggt fasteignalán samhliða hlutdeildarláni er hins vegar mjög takmarkaður vegna mikillar greiðslubyrði á slíkum lánum. 

Stærsti hluti umsókna um hlutdeildarlán sem hefur verið synjað á undanförnum mánuðum hefur verið frá einstaklingum. Er það vegna þess að umsækjendur stóðust ekki greiðslumat og/eða skilyrði um hámarksgreiðslubyrði í hlutfalli við tekjur. Jafnvel þó að niðurstaða úr greiðslumati sé jákvæð dugir það ekki alltaf til þar sem afborgun af fasteignaláni má ekki nema meira en 40% af ráðstöfunartekjum hjá fyrstu kaupendum. 

Í töflunni hér fyrir neðan má sjá fjölda umsókna um hlutdeildarlán á árinu eftir fjölskyldustærð og hlutfall samþykktra umsókna fyrir hverja fjölskyldustærð. 

Samþykktarhlutfallið er hæst hjá einstæðum foreldrum en það skýrist að hluta til vegna hærri tekjumarka og greiðara aðgengi að hærra hlutdeildarláni. Tekjumörkin hækka með hverju barni á framfæri umsækjanda, bæði þegar sótt er um allt að 20% og allt að 30% hlutdeildarlán. Þegar einstaklingur uppfyllir skilyrði fyrir hlutdeildarlán sem nemur 20% eða meira af kaupverði er hlutfall fasteignaláns lægra og þar af leiðandi greiðslubyrði lægri. 

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um hlutdeildarlán fyrir október 

Opið er fyrir umsóknir um hlutdeildarlán til kl. 12:00, fimmtudaginn 16. október næstkomandi. Til úthlutunar fyrir tímabilið verða 333 milljónir króna. 

Nánari upplýsingar um hlutdeildarlán og umsóknarferlið má finna á Ísland.is 

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS