29. mars 2023

Brunar og slys vegna rafmagns 2010-2021

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

Komin er út skýrsla HMS um bruna og slys af völdum rafmagns fyrir árin 2010 - 2021. Skýrsluna má nálgast hér.

Yf­ir­lit raf­magns­bruna

HMS skráir aðeins þá bruna sem stofnuninni berast upplýsingar um en það er aðeins lítill hluti allra rafmagnsbruna í landinu. Árin 2010-2021 voru 310 rafmagnsbrunar skráðir hjá Rafmagns- og vöruöryggi HMS. Þetta er þó ekki nema hluti þeirra rafmagnsbruna sem verða því talið er að fjöldi „minni“ bruna sé aldrei tilkynntur eða bara tilkynntur til tryggingarfélaga.

Á árunum 2017-2021 bárust HMS rannsóknarbeiðnir fyrir 105 brunaatvikum á þessum fimm árum. Rannsakaðir brunar hafa verið tæp 33% af skráðum rafmagnsbrunum.

Fjögur dauðsföll eru talin vera af völdum rafmagnsbruna á tímabilinu 2010-2021, en á tímabilinu 2000-2009 urðu fjögur dauðsföll vegna rafmagnsbruna. Sé horft aftur til ársins 2000 er meðaldánartíðni vegna rafmagnsbruna 0,8 dauðsföll á ári á hverja 1.000.000 íbúa. Það er lægri tíðni en á hinum Norðurlöndunum.

Algengast er að rafmagnsbrunar verði í íbúðarhúsnæði, en þar urðu 158 (50,97%) allra rafmagnsbruna á árunum 2010-2021. Uppruna bruna mátti oftast rekja til raffanga, eða í 194 (62,2%) tilvika. Fastalagnir voru næst algengasti brunavaldur, eða 68 (21,9%) tilvik, síðan kom lýsing með 26 (8,4%) tilvik og „annað“ með 8 (2,6%) tilvika. Skráðir eru 14 (4,5%) rafmagnsbrunar með uppruna sinn í veitubúnaði.

Algengustu einstöku brunavaldar voru eldavélar með 53(17,1%) tilvik, raflagnir með 37 (11,94%), töflur og dreifikerfi með 26 (8,39%), rafeindatæki með 21(6,77%), rafhitunartæki með 20 (6,45%) og ísskápar, kælar og frystar með 17 (5,48%) tilvik. Aðrir helstu brunavaldar voru glóperur, lausataugar og þvottavélar. Aðeins 2 (0,65%) bruna var hægt að rekja til sjónvarpstækis.

Orsök bruna var í 175 (56,5%) tilvika vegna bilunar eða hrörnunar. Í 80 (25,8%) tilvika var orsökin röng notkun á búnaðinum sjálfum, en í 15 (4,8%) tilvika vegna lausra tenginga. Með réttri notkun og frágangi hefði því mátt koma í veg fyrir um rúmlega fjórðung rafmagnsbruna. Ekki var hægt með vissu að upplýsa um brunaorsök í 40 (12,9%) tilvika og er það því skráð sem óupplýst mál.

Yf­ir­lit raf­magns­slysa

Árin 2010-2021 voru skráð 46 rafmagnsslys hjá HMS. Stofnunin telur að það sé aðeins lítill hluti allra rafmagnsslysa, en gerir ráð fyrir að skráningin nái til flestra alvarlegra slysa sem verða. Skráðum slysum vegna rafmagns hefur fækkað, því síðustu 11 árin er árlegt meðaltal slysa 3,8 en meðaltal slysa 2000-2009 var 6,1.
Eitt dauðsfall hefur orðið af völdum rafmagns síðustu 11 árin, en það gera 0,09 dauðsföll á ári fyrir síðasta áratug.

Tölfræðilegar niðurstöður byggjast á greiningu slysa á 11 ára tímabili sem spannar árin 2010-2021, alls 46 slys. Meirihluti þeirra sem slasast eru fagmenn á rafmagnssviði. Undanfarin 11 ár hafa 27 (58,70%) slasaðir verið fagmenn en 19 (41,30%) verið leikmenn eða aðilar með tilsögn fagmanns. Í nær öllum tilfellum reyndust þetta vera karlmenn sem slasast. Þeir sem slösuðust voru flestir á aldrinum 50-69 ára eða 14 (30,77%), 14 (15,38%) þeirra sem slösuðust voru á

aldrinum 30-50 ára, 6 (11,6%) þeirra sem slösuðust voru á aldrinum 17-29 ára og ekki er vitað um aldur í 18 (42,31%) tilvika. Orsök slysa var yfirleitt mannleg, þ.e. mistök, aðgæsluleysi eða röng vinnubrögð. Á það við um 33 (71,74%) tilfellum slysa. Því hefði með réttum vinnubrögðum og aðgæslu verið hægt að komast hjá flestum slysanna. Röng vinnubrögð stafa m.a. af ófullnægjandi vinnureglum eða að þeim er ekki fylgt. Bilun í búnaði var orsök í 10 (21,74%) tilvika og í 3 (6,52%) tilvikum var orsök óupplýst.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS