16. september 2025
17. september 2025
Björnis brunabangsi fluttur til Íslands
Björnis brunabangsi fékk hjartnæmar móttökur þegar hann lenti á Keflavíkurflugvelli 19. ágúst sl. Leikskólabörn frá Reykjanesbæ, fulltrúar frá Brunavörnum Suðurnesja og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins tóku á móti Björnis á Keflavíkurflugvelli, en sjónvarpsþættir um bangsann hafa þegar notið mikilla vinsælda hjá börnum hérlendis á RÚV.
Markmið verkefnisins
Björnis brunabangsi mun aðstoða slökkvilið landsins við að efla forvarnir og fræðslu, sérstaklega gagnvart yngstu kynslóðinni. Verkefnið byggir á þremur meginþáttum:
- Huggunarbangsi á dælubílum - Bangsi verður í öllum dælubílum landsins til að veitir börnum öryggi og huggun þegar slökkviliðið kemur að í erfiðum aðstæðum.
- Eldvarnarfræðsla í leikskólum - Elsta árgangi leikskólabarna verður sýnt fræðslumyndband með Björnis og litabók dreift sem styður við nám og umræðu um eldvarnir á heimilum.
- Björnis heimsækir slökkviliðin – Björnis mun ferðast um landið og heimsækja slökkviliðin. Dagskrá um ferðir Björnis er í vinnslu og mun viðkomandi slökkvilið auglýsa komu hans í heimsókn.
Móttökurnar sem Björnis brunabangsi hefur fengið sýnir að fjölmörg tækifæri eru í forvarnarstarfi sem skapar traustan grunn fyrir áframhaldandi uppbyggingu, þar sem verkefnið býður upp á aukið samstarf við leikskóla um allt land, markvissa þátttöku viðbragðsaðila í fræðslu og nýjar leiðir til að virkja samfélagið í heild í umræðu um brunavarnir.
Björnis brunabangsi er virkur á samfélagsmiðlunum og má finna hann á Facebook, Instagram og Tiktok.
HMS er stoltur samstarfs- og styrktaraðili verkefnisins og mun vinna með slökkviliðunum landsins og öðrum hagsmunaaðilum að innleiðingu þess í samræmi við hlutverk HMS á sviði brunavarna. Verkefnið er liður í metnaðarfullri áætlun um að efla brunavarnir á heimilum landsmanna.