12. apríl 2024

Allar endurmatsbeiðnir vegna brunabótamats íbúða í Grindavík afgreiddar

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Umsóknir allra íbúðaeigenda í Grindavík sem sóttu um endurmat á brunabótamati eigna sinna hafa nú verið afgreiddar
  • HMS hefur afgreitt margfalt fleiri umsóknir um endurmat á brunabótamati á síðustu mánuðum heldur en stofnunin gerir í venjulegu árferði
  • Fjöldi eigna í Grindavík sem fengu uppfært og hærra brunabótamat gefur vísbendingu um að brunabótamat sé víða vanmetið þar sem eigendur sækja ekki um endurmat eftir meiri háttar framkvæmdir

HMS hefur afgreitt allar beiðnir um endurmat á brunabótamati íbúða í eigu einstaklinga sem stofnuninni hafa borist frá Grindavík. Fjöldi endurmatsbeiðna sem leiddu til hækkunar komu á óvart sem gefur vísbendingu um að fólk er ekki að sækja um endurmat í kjölfar endurbóta eða nýframkvæmda og líkur á því að brunabótamat sé því víða vanmetið.

Marg­falt fleiri end­ur­mats­beiðn­ir en venju­lega

Líkt og HMS hefur áður bent á hefur stofnuninni borist margfalt fleiri endurmatsbeiðnir en alla jafna vegna brunabótamats í kjölfar jarðhræringa og eldsumbrota í Grindavík á síðustu mánuðum. Í fyrrahaust tók HMS frumkvæði að því að tryggja að allar eignir sem áttu að vera með brunabótamat í Grindavík og víðar á Suðurnesjum væru með brunabótamat, auk þess sem stofnunin endurskoðaði eignir sem voru með fryst brunabótamat.

HMS sendi einnig áskoranir á eigendur að hafa samband með upplýsingum um eignir sínar ef grunur lék á að brunabótamatið væri vanmetið, til dæmis vegna meiri háttar framkvæmda sem ekki hefur verið tekið tillit til. Þess fyrir utan hvatti stofnunin íbúðaeigendur til að huga að brunabótamatinu á húseignum sínum í fjölmiðlum, auk þess sem vakin var athygli á möguleikanum á endurmati á íbúafundum með Grindvíkingum. Í kjölfarið fór að bera á mikilli aukningu í fjölda beiðna til HMS strax alls staðar af landinu í október og var fjöldi beiðna um endurmat þrefalt fleiri í október og fimmfalt fleiri í nóvember en alla jafna á mánuði.

Í febrúar voru svo ný lög samþykkt um stofnun fasteignafélagsins Þórkötlu og uppkaup ríkisins á íbúðarhúsnæði í eigu einstaklinga í Grindavík. Lögin leiddu til enn fleiri endurmatsbeiðna þar sem kaupverðið á íbúðunum fer eftir brunabótamati þeirra. Í kjölfarið fékk HMS álíka mörg verkefni og stofnuninni berst alla jafna á tveimur árum.

Bruna­bóta­mat er lík­lega oft van­met­ið

HMS hefur áður bent á að líklega er brunabótamat vanmetið um allt land, þar sem íbúðaeigendur þurfa sjálfir að sækja um endurmat brunabótamats eftir að hafa staðið í meiri háttar framkvæmdum á eignum sínum. Til meiri háttar framkvæmda flokkast til dæmis viðbætur við íbúð á borð við sólpall, skjólveggi úr timbri og heitan pott.

Brunabótamat er á ábyrgð fasteignaeigenda og á að endurspegla kostnaðinn við að byggja húsið aftur ef til altjóns kæmi. Niðurstöður úr endurmatsbeiðnum íbúðaeigenda í Grindavík rennir stoðum undir þá kenningu að brunabótamat íbúðaeigna sé almennt vanmetið og fjölmargir fasteignaeigendur því vantryggðir, þar sem hátt hlutfall íbúðanna þurfti endurmat.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS