20. desember 2024
11. mars 2024
Endurmatsbeiðnir á brunabótamati gætu tekið allt að sex vikur
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Alls bárust um 1.000 beiðnir um endurmat á brunabótamati til HMS í febrúar fram í byrjun mars, en þær hafa margfaldast vegna ástandsins í Grindavík. Endurmatsbeiðnirnar í mánuðinum voru álíka margar og fjöldi beiðna sem gera má ráð fyrir að stofnunninni berist að jafnaði á einu og hálfu ári. HMS áætlar að afgreiðslutími endurmatsbeiðna, sem tekur að jafnaði viku, gæti nú tekið allt að sex vikur.
Stór hluti þess mikla fjölda beiðna sem HMS barst í febrúar kemur frá Grindavík en í kjölfar umfjöllunar um mikilvægi brunabótamats síðustu vikna hafa fleiri eigendur húseigna alls staðar af landinu einnig sent inn endurmatsbeiðnir eftir að hafa farið í stærri framkvæmdir á eignum sínum. Með endurmati geta íbúðaeigendur tryggt að brunabótamatið á eignum sínum sé sem réttast og endurspegli sem best vátryggingarverðmæti þeirra.
Ekki hægt að óska eftir flýtimeðferð
Í kjölfar þessa mikla fjölda umsókna sem HMS hefur borist býst stofnunin við að úrvinnsla þeirra, sem tekur að jafnaði 1-5 virka daga, gæti lengst töluvert. Þegar þetta er skrifað er áætlaður afgreiðslutími endurmatsbeiðna kominn í allt að sex vikur. HMS er þó að gera allt í sínu valdi til þess að hraða vinnslu eftir fremsta mætti. Beiðnirnar eru unnar í þeirri röð sem þær berast inn og ekki er hægt að óska eftir flýtimeðferð. Stofnunin er meðvituð um að mörgum liggur á að niðurstaða liggi fyrir og því mikilvægt að gæta sanngirnis í vinnsluröð mála.
Viðbætur og umfangsmiklar endurbætur kalla á endurmat
HMS hefur áður tekið saman helstu upplýsingar um endurmat brunabótamats og framkvæmd þeirra í ljósi atburðanna í Grindavík. Húseigendur hafa ástæðu til að óska eftir endurmati á brunabótamati ef einhverju hefur verið bætt við eignina eða ef farið hefur verið í miklar endurbætur umfram hefðbundið viðhald og heilum byggingarhlutum skipt út.
Brunabótamat byggir á skráningu húseigna, hönnunargögnum og upplýsingum frá eiganda. Mikilvægt er að gögn sem eigendur leggja fram endurspegli núverandi ástand eignarinnar enda á brunabótamat að endurspegla vátryggingarverðmæti eignarinnar á þeim tíma þegar virðing fer fram.
Á vefsíðunni Brunabótamat | Ísland.is (island.is) er hægt að lesa á aðgengilegan hátt allt um endurmat brunabótamats og þar er einnig að finna beiðni um endurmat.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS