6. febrúar 2025
6. febrúar 2025
HMS kortleggur eignarhald og afmörkun jarða
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
HMS hélt í gær fjölsóttan fund sem bar yfirskriftina „Hver á Ísland? Eignarhald og afmörkun jarða“. Eignarhald jarða á Íslandi hefur verið ofarlega á baugi í þjóðmálaumræðu undanfarinna missera. Á meðal þess sem rætt hefur verið um er hvernig jarðirnar eru skráðar, en hingað til hefur skráningin ekki getað gefið skýr svör um stærðir fjölmargra eigna og afmörkun þeirra. Á fundinum var kynnt uppbygging heildstæðrar landeignaskrár, þær leiðir sem HMS mun fara til þess að ná betri yfirsýn yfir eignarhald og afmörkun jarða á næstu misserum og hvaða virði verkefnið hefur fyrir samfélagið.
Arnar Þór Sævarsson framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga var fyrstur á mælendaskrá og fór yfir mikilvægi þess að eignarhald á landi væri þekkt stærð. Með heildstæðri landeignaskrá geti ríki og sveitarfélög geti sett fram skýra stefnu um eignarhald og nýtingu landeigna.
Heildstætt upplýsingakerfi um eignarhald lands
Tryggvi Már Ingvarsson framkvæmdastjóri fasteignasviðs HMS kom inn á að til að svara spurningunni „hver á Ísland?“ þurfi að liggja fyrir hnitsett afmörkun fasteigna í landeignaskrá með tilvísun í þinglýst eignarhald og raunverulega eigendur ef um lögaðila er að ræða.
Frá því að HMS tók við málaflokki fasteignaskrár hefur stofnunin unnið markvisst að uppbyggingu landeignaskrár þannig að hún geti þjónað sem heildstætt upplýsingakerfi um eignarhalds lands á Íslandi. Farið verður í kerfisbreytingu í skráningu fasteigna þannig að hnitsetning sé grundvöllur framtíðarskráningar. Þá mun HMS hafa frumkvæði kortlagningu fasteigna sem ekki hafa hnitsetta afmörkun í landeignaskrá með því að nýta opinber gögn til að áætla legu eignamarka og bera undir eigendur jarða.
Verkefnið er nú komið vel á veg og hafa eignamörk um 1.720 jarða á Norðurlandi verið áætluð og bréf þess efnis sent á um 3.900 landeigendur. Þessir aðilar geta nú kynnt sér áætlunina í vefsjá landeignaskrár og hafa svo sex vikur til að bregðast við og senda HMS athugasemdir um áætlaða legu einstakra eignamarka. Næstu svæði sem verða tekin til yfirferðar eru Vestfirðir og Norðausturland að Langanesi. Gert er ráð fyrir að áætlun eignamarka á þeim svæðum verði kynnt landeigendum síðar á þessu ári. Á næstu árum er svo er ráðgert að vinna Suðausturland, Austurland, Vesturland, og enda svo á Suðurlandi og Suðvesturlandi árið 2028.
Landeignaskrá grundvöllur fyrir ákvarðanatöku sveitarfélaga
Á fundinum fjallaði Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri Skagafjarðar um verkefnið út frá sjónarhorni sveitarstjórnarstigsins. Sigfús fór yfir mikilvægi þess að heildstæð landeignaskrá lægi fyrir í ljósi þess að sveitarfélögin eru stærsti landeigandinn á Íslandi. Þá séu upplýsingar um afmörkun og eignarhald lands grundvöllur fyrir ákvarðanatöku hjá sveitarfélögunum, til dæmis við aðal- og deiliskipulagsgerð. Þá eru upplýsingarnar sömuleiðis grundvöllur fyrir sjálfbæra þróun í landbúnaði og uppbyggingu innviða. Landeignaskráin mun að mati Sigfúsar koma til með að gera feril húsnæðisuppbyggingar skilvirkari þar sem eignarheimildir liggja þá skýrt fyrir og þar sem útgáfa byggingar- og framkvæmdaleyfa er almennt tengd landeignum.
Eignarhald og afmörkun lands snerti fæðuöryggi þjóðarinnar
Margrét Ágústa Sigurðardóttir framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands tók að lokum til máls. Margrét fjallaði um mikilvægi þess að afmörkun og eignarhald lands sé skýrt og afdráttarlaust með tilliti til nýtingar lands til ræktunar og búrekstrar þar sem það snerti fæðuöryggi þjóðarinnar.
,,Við hjá Bændasamtökum Íslands bindum vonir um að þetta verkefni muni verða liður í því að tryggja að gott landbúnaðarland nýtist fyrst og fremst til landbúnaðar“ sagði Margrét.
Að sögn Bændasamtakanna skipti máli að jarðir séu keyptar til búrekstrar til þess að tryggja landbúnaðarframleiðslu og tryggja byggð í landinu.
Ný vefsjá landeignaskrár má nálgast hér
Upptöku af fundinum má nálgast hér
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS