11. september 2025
11. september 2025
Yfir þúsund kaupsamningar um íbúðarhúsnæði í júlí
- Meira líf á markaði fyrir notaðar íbúðir í júlímánuði samanborið við fyrri ár
- Áfram hægist á raunverðshækkun vísitölu íbúðaverðs sem mælist nú 0,18 prósent undanfarna tólf mánuði
- Hrein ný íbúðalán til heimila ekki verið hærri í einum mánuði síðan 2021
Þinglýstir kaupsamningar voru 1.047 talsins í júlímánuði, en þeir voru álíka margir í maí og júní. Velta á fasteignamarkaði var rúmlega 81,2 milljarðar króna og meðalvelta á hvern kaupsamning var þannig 77,9 milljónir króna.
Á mynd hér að neðan má sjá mánaðarlegar tölur um fjölda kaupsamninga eftir tegund íbúða frá janúar til júlí, samanborið við meðaltöl og staðalfrávik fyrir tímabilið 2015 til 2024.
Líkt og myndin sýnir hefur fjöldi kaupsamninga um nýjar íbúðir verið aðeins undir meðaltali síðustu tíu ára á undanförnum þremur mánuðum. Á fyrstu 7 mánuðum ársins hafa að meðaltali 149 nýjar íbúðir selst í hverjum mánuði, en til samanburðar hafa að meðaltali 165 nýjar íbúðir selst mánaðarlega á síðustu tíu árum.
Hins vegar hefur fjöldi kaupsamninga um notaðar íbúðir verið í takt við meðaltal síðustu tíu ára á undanförnum þremur mánuðum. Alls voru 899 kaupsamningum þinglýst í júlímánuði sem er töluvert yfir júlímeðaltali síðustu tíu ára.
Hrein ný íbúðalán til heimila ekki hærri í fjögur ár
Hrein ný íbúðalán til heimila námu alls 25,2 milljörðum króna í júlí og á föstu verðlagi þarf að leita aftur til september 2021 til að finna hærri lánveitingar til heimila vegna fasteignakaupa í einum mánuði. Á þeim tíma voru nafnvextir með lægsta móti en stýrivextir stóðu í 1% í september 2021.
Líkt og sjá má á myndinni hér að ofan voru hrein ný óverðtryggð íbúðalán til heimila, þ.e. lántökur umfram upp- og umframgreiðslur, í fyrsta skipti jákvæð frá því í janúar 2023. Á þeim tíma voru um 55% allra íbúðalána heimila á óverðtryggðum vöxtum en í júlí var hlutdeild þeirra 38%. Hækkandi nafnvaxtastig ásamt þrengri lánþegaskilyrðum Seðlabankans ýtti undir ásókn heimila í verðtryggð lán og þannig hefur hlutdeild slíkra lána hækkað á sama tíma og hlutdeild óverðtryggðra lána hefur lækkað.
Útlit fyrir ágætis virkni á fasteignamarkaði í ágúst
Fyrstu tölur um kaupsamninga í ágúst má finna í mælaborði HMS um veltu og fjölda kaupsamninga, en samkvæmt mælaborðinu voru að minnsta kosti 865 kaupsamningar gefnir út um íbúðarhúsnæði í ágústmánuði.
Á sama tíma og virkni á fasteignamarkaðnum er töluverð hefur hægst á verðhækkunum en raunverðshækkun íbúðaverðs mældist 0,18 prósent í júlí samanborið við 0,52 prósent í júní og 1,87 prósent í maí, líkt og lesa má um í frétt á vef HMS. Þó ber að hafa í huga að mikið framboð íbúða þessi misserin heldur að öllum líkindum aftur að verðhækkunum.
Í því samhengi má nefna að fjöldi nýrra íbúða á markaði hefur nær tvöfaldast frá upphafi árs 2023 en í heildina voru um 5.000 íbúðir til sölu á landinu öllu í upphafi september og þar af um 2.000 nýjar íbúðir.
Vísitala íbúðaverðs í ágúst verður gefin út þriðjudaginn 16. september nk.