10. apríl 2025

Yfir þúsund kaupsamningar í mars

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Kaupsamningum hefur fjölgað á síðustu mánuðum og mikill fjöldi fasteigna sem teknar eru úr sölu bendir til töluverðrar virkni á fasteignamarkaði þessa stundina
  • Leita þarf aftur til áranna 2020 og 2021 til að finna jafnmikil umsvif á meðal íbúða sem ekki eru í nýbyggingum
  • Nýjar íbúðir seljast hægar, en stærð þeirra er ekki í samræmi við eftirspurn síðustu ára

Samkvæmt Kaupverðsjá HMS voru yfir þúsund kaupsamningar gefnir út í marsmánuði og hefur þeim fjölgað töluvert frá ársbyrjun. Þinglýstir kaupsamningar hafa ekki verið jafnmargir frá því í ágúst og september í fyrra, en þeim fækkaði nokkuð í október, nóvember og desember.

Kaupverðsjáin er uppfærð daglega, en allt að sex vikna töf getur verið á því að þinglýstir kaupsamningar komi fram í henni. Kaupsamningar fyrir nýliðinn mánuð gætu því hafa verið fleiri en mælaborðið sýnir þessa stundina.

Líkt og HMS benti á í síðasta mánuði hefur eignum sem teknar voru af sölu fjölgað hratt frá ársbyrjun, sem er vísbending um aukna virkni á fasteignamarkaði. Á síðustu 11 árum  hefur verið sterk fylgni á milli fjölda íbúða sem teknar eru af söluskrá í hverjum mánuði og fjölda kaupsamninga mánuði seinna.

Alls voru 1.151 fasteign tekin af sölu í mars, sem er álíka mikill fjöldi og var tekinn úr sölu í febrúar. HMS býst því við að virkni á fasteignamarkaði haldist áfram mikil í apríl, að öðru óbreyttu.

Minni fylgni á milli kaup­samn­inga og af­skrán­inga hjá nýj­um íbúð­um

Á myndinni hér að neðan má sjá fjölda kaupsamninga og fjölda fasteigna sem teknar eru af sölu í hverjum mánuði eftir tegund íbúða frá árinu 2014. Mikil umsvif voru á fasteignamarkaði í mars meðal íbúða sem ekki eru í nýbyggingum þar sem 985 slíkar eignir voru teknar af sölu. En leita þarf aftur til áranna 2020 og 2021 til að finna jafnmikil umsvif, þegar vextir á húsnæðislánum voru í sögulegu lágmarki.

Fylgnin á milli fjölda kaupsamninga og afskráninga á auglýsingasíðum er aftur á móti veikari hjá nýjum íbúðum heldur en hjá öðrum íbúðum. Fylgnin er þó enn jákvæð og fjölgun afskráninga nýrra íbúða á sölu hefur alla jafna verið undanfari fjölgunar kaupsamninga á slíkum íbúðum nokkrum mánuðum seinna. Lengra bil er á milli breytinga í afskráningum og breytinga í fjölda kaupsamninga hjá nýrri íbúðum, sem bendir til þess að lengri tíma tekur að ganga frá kaupsamningum hjá þeim heldur en hjá öðrum íbúðum.

Alls voru 166 nýjar íbúðir teknar úr sölu í mars, en á fyrstu þremur mánuðum ársins hafa mun fleiri nýjar íbúðir verið teknar úr sölu heldur en í október, nóvember og desember á síðasta ári. 103 kaupsamningum um nýjar íbúðir var þinglýst í febrúar, en til samanburðar voru þeir yfir 200 á sama tíma í fyrra.

Fáar nýj­ar íbúð­ir eru litl­ar

Lítið er af minni nýjum íbúðum til sölu ef miðað er við eftirspurn.  Hlutdeild lítilla íbúða í nýbyggingum á höfuðborgarsvæðinu þyrfti að tæplega tvöfaldast til þess að stærð nýrra íbúða á sölu sé í samræmi við eftirspurn síðustu fimm ára.

Á mynd hér að neðan má sjá stærðardreifingu allra íbúða í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu sem hafa verið seldar frá ársbyrjun 2020, auk stærðardreifingar nýrra íbúða á sölu í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu. Líkt og myndin sýnir eru flestar nýjar íbúðir á sölu á stærðarbilinu 80-120 fermetrar, en minna er af íbúðum sem eru undir 80 fermetrum og yfir 120 fermetrum að stærð.

Frá árinu 2020 hefur 32 prósent allra seldra íbúða í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu verið undir 80 fermetrum að stærð, en einungis 17 prósent nýrra íbúða á sölu eru í þessum stærðarflokki. Því þyrfti hlutdeild íbúða undir 80 fermetrum að stærð að vera 90 prósent meiri til þess að stærðardreifing íbúða á sölu yrði sú sama og stærðardreifing seldra íbúða á höfuðborgarsvæðinu.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS