18. september 2024

Vísitala leiguverðs lækkaði um 1,1 prósent í ágúst

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Markaðsleiga lækkaði á milli mánaða í ágúst, en hefur hækkað mikið á ársgrundvelli
  • Á síðustu 12 mánuðum hefur markaðsleiga hækkað um 12,2 prósent, en til samanburðar var árshækkunin 15,1 prósent í júlí
  • 12 mánaða raunbreyting leiguverðs nam 5,8 prósent í ágúst, samanborið við 8,3 prósenta raunbreytingu í júlí

Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu var 117,1 stig í ágúst og lækkaði um 1,1 prósent á milli mánaða. Á milli ágústmánaða 2023 og 2024 hefur vísitalan hækkað um 12,2 prósent, en til samanburðar mældist verðbólga 6 prósent og vísitala íbúðaverðs hækkaði um 10,8 prósent á sama tímabili.

Lækkun leiguvísitölunnar sýnir því að markaðsleiga lækkar á milli mánaða, í fyrsta skiptið frá því í byrjun árs. Vísitala leiguverðs byggir á nýjum leigusamningum í Leiguskrá HMS um hefðbundnar íbúðir sem eru í eigu einstaklinga og fyrirtækja sem eru rekin í hagnaðarskyni. Stuðst er við leigusamninga síðastliðna tvo mánuði, þannig að nýjasta gildi hennar í ágústmánuði byggir á samningum í júlí og ágúst.

Þróun leiguvísitölunnar frá maímánuði 2023 má sjá á mynd hér að neðan. Einnig er hægt að nálgast eldri og sameinaðar vísitölur HMS á hms.is/visitolur.

Leiguvísitalan sýnir breytingar á vegnu meðaltali fermetraverðs. Byggt er á leigusamningum um hefðbundnar íbúðir sem eru í eigu einstaklinga og fyrirtækja sem rekin eru í hagnaðarskyni. Reiknað er meðalfermetraverð í 6 flokkum eftir herbergjafjölda og niðurstöður vegnar saman með veltu síðustu 12 mánaða. 

Leigu­verð held­ur áfram að hækka að raun­virði

Raunverðshækkun vísitölu leiguverðs á ársgrundvelli nam 5,8 prósent í ágúst en til samanburðar hækkaði markaðsleiga um 8,3 prósent að raunvirði í júlí og 6,8 prósent að raunvirði í júní á ársgrundvelli. Á þeim 12 árum sem sameinuð leiguverðsvísitala nær yfir hefur raunverðshækkun á ársgrundvelli aðeins verið meiri á árinu 2017, en þá var hún á bilinu 10 til 12 prósent.

Hægt er að nálgast gögn úr Leiguskrá HMS um fjölda leigusamninga sem taka gildi og falla úr gildi eftir landshlutum og tegund leigusala á hms.is/gogn-og-mælaborð/leiguskra.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS