3. desember 2024
16. október 2024
Vísitala leiguverðs lækkaði um 0,6 prósent í september
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Vísitala leiguverðs heldur áfram að lækka milli mánaða í september þó lækkunin sé minni en í ágúst
- Á síðustu 12 mánuðum hefur markaðsleiga hækkað um 10,5 prósent, en til samanburðar var árshækkunin 12,2 prósent í ágúst og 15,1 prósent í júlí
- 12 mánaða raunbreyting leiguverðs nam 4,8 prósent í september, samanborið við 5,8 prósenta raunbreytingu í ágúst
Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu var 116,4 stig í september og lækkaði um 0,6 prósent á milli mánaða. Þetta er annað skiptið í röð sem vísitalan lækkar á milli mánaða, en hún lækkaði um 1,1 prósent í ágúst. Á milli septembermánaða 2023 og 2024 hefur vísitalan hækkað um 10,5 prósent, en til samanburðar mældist verðbólga 5,4 prósent og vísitala íbúðaverðs hækkaði um 9,5 prósent á sama tímabili.
Lækkun leiguvísitölunnar* annan mánuðinn í röð sýnir því að markaðsleiga lækkar aftur milli mánaða.
Þróun leiguvísitölunnar frá maímánuði 2023 má sjá á mynd hér að neðan. Einnig er hægt að nálgast eldri og sameinaðar vísitölur HMS á hms.is/visitolur.
Vísitalan hækkaði um 4,8 prósent á ársgrundvelli í september umfram verðbólgu, en raunverðshækkanir hafa verið í kringum 7 prósent frá því apríl á þessu ári.
Leiguverðsjá sýnir lækkun í ágúst
Ný leiguverðsjá kom út á vef HMS í síðasta mánuði, en með henni geta leigusalar og leigutakar nálgast upplýsingar um markaðsverð íbúða og fjölda leigusamninga í hverjum mánuði.
Hér að neðan má sjá skjáskot að leiguverðsjánni, þar sem höfuðborgarsvæði er valið sem svæði og markaðsleiga er valin sem flokkur leigusala. Með þeirri síun sést að meðaltal leiguverðs breytist lítið milli mánaða í september og lækkaði úr 284 þúsund krónum í júlí í 274 þúsund krónur í ágúst. Hafa þarf þó í huga að leiguverðsjáin sýnir ekki nákvæma breytingu, þar sem hún sýnir ekki breytingar á fermetraverði og tekur ekki tillit til vægi hvers flokks.
Hægt er að nálgast leiguverðsjá HMS með því að smella á þennan hlekk.
*Leiguvísitalan sýnir breytingar á vegnu meðaltali fermetraverðs. Byggt er á leigusamningum um hefðbundnar íbúðir sem eru í eigu einstaklinga og fyrirtækja sem rekin eru í hagnaðarskyni. Reiknað er meðalfermetraverð í 6 flokkum eftir herbergjafjölda og niðurstöður vegnar saman með veltu síðustu 12 mánaða. Stuðst er við leigusamninga síðastliðinna tveggja mánaða við útreikning vísitölunnar, svo septembergildi hennar tekur mið af leigusamningum í ágúst og september.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS