20. janúar 2025
21. ágúst 2024
Vísitala leiguverðs hækkaði um 2 prósent í júlí
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Markaðsleiga hélt áfram að hækka langt umfram fasteignaverð og almennt verðlag í júlí
- Leita þarf aftur til ársins 2017 til að finna viðlíka hækkanir leiguverðs á markaði
- Leiguvísitalan tekur ekki tillit til leiguverð íbúða í eigu óhagnaðardrifinna leigufélaga og sveitarfélaga
Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu var 118,4 stig í júlí 2024 og hækkaði um 2,0 prósent á milli mánaða. Á ársgrundvelli hefur vísitala leiguverðs hækkað um 15,1 prósent, á sama tíma og verðbólga mældist 6,3 prósent og vísitala íbúðaverðs hækkaði um 11 prósent.
Vísitalan byggir á nýjum leigusamningum í Leiguskrá HMS um hefðbundnar íbúðir sem eru í eigu einstaklinga og fyrirtækja sem eru rekin í hagnaðarskyni. Stuðst er við leigusamninga síðastliðna tvo mánuði, þannig að nýjasta gildi hennar byggir á samningum í júní og júlí. Vísitalan byggir því ekki á leigusamningum hjá óhagnaðardrifnum leigufélögum eða sveitarfélögum.
Þróun leiguvísitölunnar frá maímánuði 2023 má sjá á mynd hér að neðan. Einnig er hægt að nálgast eldri og sameinaðar vísitölur HMS á hms.is/visitolur.
Vísitalan hækkaði um 8,2 prósent á ársgrundvelli í júlí umfram verðbólgu, en raunverðshækkanirnar voru nær 7 prósentum í apríl, maí og júní. Á þeim 12 árum sem sameinuð leiguverðsvísitala nær yfir hefur raunverðshækkun á ársgrundvelli aðeins verið meiri á árinu 2017, en þá var hún á bilinu 10 til 12 prósent.
Hægt er að nálgast gögn úr Leiguskrá HMS um fjölda leigusamninga sem taka gildi og falla úr gildi eftir landshlutum og tegund leigusala á hms.is/gogn-og-mælaborð/leiguskra.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS