18. júní 2024

Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 1,4 prósent í maí

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Íbúðaverð tók kipp á milli mánaða, en hækkunin var mest á meðal sérbýlisíbúða á höfuðborgarsvæðinu
  • Á síðustu tólf mánuðum hefur íbúðaverð hækkað um 8,4 prósent, sem er rúmum tveimur prósentustigum yfir verðbólgu
  • Íbúðaverð hefur hækkað minna á landsbyggðinni heldur en á höfuðborgarsvæðinu

Ný vísitala íbúðaverðs mældist 104,9 stig í maí og hækkaði um 1,4 prósent á milli mánaða, sem er talsvert meiri hækkun en í apríl þegar vísitalan hækkaði um 0,8 prósent milli mánaða. Mánaðarhækkun vísitölunnar má nánast alfarið rekja til verðhækkunar á íbúðum í sérbýli sem nam um það bil 2,5 prósent, samanborið við 0,2 prósent hækkun og 0,3 prósent lækkun á íbúðum í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.

Taflan hér að neðan sýnir vísitöluna, ásamt mánaðarhækkun hennar og 12 mánaða hækkun, auk fjögurra undirvísitalna fjölbýlis og sérbýlis á landsbyggð og á höfuðborgarsvæðinu.

Vísi­tala íbúða­verðs fyr­ir maí 2024

VísitalaGildiBreyting á milli mánaða12 mánaða breyting
Íbúðaverð104,91,4%8,4%
Sérbýli á hbs.104,42,5%10,2%
Sérbýli á landsbyggð106,12,6%7,1%
Fjölbýli á hbs.104,50,2%7,5%
Fjölbýli á landsbyggð105,7-0,3%7,3%

Á myndinni hér að neðan má sjá þróun nýrrar vísitölu íbúðaverðs, ásamt undirvísitölum, frá janúar 2020. Einnig sýnir myndin eldri vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu fyrir tímabilið 1994-2024 sem var birt á vef Fasteignaskrár, auk sameiginlegrar vísitölu, sem er byggð er á eldri vísitölum íbúðaverðs fyrir tímabilið 1981-2024 og nýrrar undirvísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu og tekur gildið 100 í janúar 2024. Myndina má finna á hms.is/visitolur.

Líkt og myndin og taflan hér að ofan gefa til kynna hefur vísitala íbúðaverðs hækkað um 8,4 prósent á síðustu tólf mánuðum á sama tíma og verðbólga hefur mælst 6,2 prósent samkvæmt útreikningi Hagstofu Íslands á vísitölu neysluverðs. Íbúðaverð hefur þannig hækkað að raunvirði á milli maí mánaða 2023 og 2024 líkt og í síðasta mánuði en þar áður hafði verðbólga mælst umfram íbúðaverðshækkun á ársgrundvelli í 14 mánuði samfleytt, eða frá því í febrúar 2023.

Raunverðshækkun vísitölu íbúðaverðs á ársgrundvelli nam 2,2 prósentum í maí en til samanburðar hækkaði íbúðaverð um 0,4 prósent að raunvirði á ársgrundvelli í apríl.

Raunhækkun íbúðaverðs er drifin áfram af verðhækkunum á landinu öllu, en íbúðaverð hækkaði umfram verðbólgu bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.

Árshækkun íbúðaverðs var mest á íbúðum í sérbýli á höfuðborgarsvæðinu en slíkar íbúðir hækkuðu um 10,2 prósent á ársgrundvelli eða um 4 prósent umfram verðbólgu á tímabilinu. Verð á íbúðum í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði minna á milli ára, eða um 7,5 prósent.

Íbúðaverð hækkaði minna á landsbyggðinni á milli ára samanborið við höfuðborgarsvæðið. Á landsbyggðinni nam hækkun íbúðaverðs 7,2 prósentum, eða einu prósenti umfram verðbólgu. Verð á íbúðum í sérbýli og fjölbýli á landsbyggð hefur hækkað álíka mikið.

Uppfært 18. júní kl. 16:41. Í fyrri útgáfu fréttarinnar komu fram vitlaus gildi í töflunni fyrir sérbýli á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni, sem og í myndinni. Taflan og myndin hefur nú verið uppfærð í samræmi við fréttina.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS