19. maí 2025
20. maí 2025
Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 0,45 prósent á milli mánaða í apríl 2025
- Íbúðaverð hækkaði á milli mánaða í apríl og mældist 111,4 stig
- Á síðustu tólf mánuðum hefur íbúðaverð hækkað um 7,63 prósent, en árshækkunin nam 7,98 prósent í mars
- Íbúðaverð hækkaði minna að raunvirði og nam 3,3 prósent í apríl, samanborið við 4,05 prósenta hækkun í mars og 4,06 prósent í febrúar
Vísitala íbúðaverðs mældist 111,4 stig í mars og hækkaði um 0,45 prósent á milli mánaða. Á síðustu tólf mánuðum hefur íbúðaverð hækkað um 7,63 prósent, á sama tíma og verðbólga mældist 4,2 prósent.
Mánaðarhækkun íbúðaverðs hefur verið undir 0,5 prósentum á síðustu þremur mánuðum, en á síðustu 12 mánuðum hefur mánaðarbreyting íbúðaverðs verið að meðaltali um 0,6 prósent. Á mynd hér að neðan má sjá mánaðarbreytingu vísitölu íbúðaverðs á síðustu mánuðum.
Taflan hér að neðan sýnir vísitöluna, ásamt mánaðarhækkun hennar og 12 mánaða hækkun, auk fjögurra undirvísitalna fjölbýlis og sérbýlis á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu.
Vísitala íbúðaverðs fyrir apríl 2025
Vísitala | Gildi | Breyting á milli mánaða | 12 mánaða breyting |
---|---|---|---|
Íbúðaverð | 111,4 | 0,45% | 7,63% |
Sérbýli á hbs. | 112,3 | 1,26% | 10,21% |
Sérbýli á landsbyggð | 113,2 | -0,79% | 9,48% |
Fjölbýli á hbs. | 109,1 | 0% | 4,6% |
Fjölbýli á landsbyggð | 116,4 | 2,65% | 9,81% |
Verð á fjölbýlum á höfuðborgarsvæðinu helst óbreytt milli mánaða
Verð á fjölbýlum á höfuðborgarsvæðinu helst óbreytt milli mánaða þar sem undirvísitala slíkra eigna mældist það sama í apríl og í mars. Verð á fjölbýliseignum á höfuðborgarsvæðinu hefur haldist stöðugt síðustu þrjá mánuði, en þriggja mánaða verðbreyting á fjölbýlum á höfuðborgarsvæðinu mældist -0,2 prósent.
Mánaðarhækkun íbúðaverðs var mest hjá fjölbýlum á landsbyggðinni og næst mest hjá sérbýlum á höfuðborgarsvæðinu, en mánaðarhækkun fjölbýla á landsbyggðinni nam yfir tveimur prósentustigum.
Íbúðaverð heldur áfram að hækka umfram verðlag á landinu öllu en hækkaði minna í apríl samanborið við mars. Raunverðshækkun nam 3,3 prósent í apríl. Til samanburðar hækkaði raunverð íbúða um 4,06 prósent á milli marsmánaða 2024 og 2025.
Mælaborð fyrir vísitölur HMS
Mælaborð fyrir vísitölur HMS um íbúða- og leiguverð er aðgengilegt á vef HMS. Þar er hægt að nálgast þróun vísitölu íbúðaverðs, ásamt vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggð.
Einnig sýnir mælaborðið undirvísitölur íbúðaverðs og eldri vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu fyrir tímabilið 1994-2024 sem var birt á vef Fasteignaskrár, auk sameiginlegrar vísitölu, sem er byggð á eldri vísitölum íbúðaverðs fyrir tímabilið 1981-2024 og nýrri undirvísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu og tekur gildið 100 í janúar 2024.