31. desember 2024
2. maí 2024
Vísindaráð markar rannsóknarstefnu í húsnæðis- og mannvirkjamálum
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Vísindaráð mannvirkjagerðar kom saman í fyrsta sinn þann 22. apríl sl. en það var myndað á grunni aðgerðar 1.1.a. í Vegvísi að mótun rannsóknarumhverfis mannvirkjagerðar.
Með aðstoð starfs- og rýnihópa um sértæka málaflokka mun vísindaráðið greina rannsóknaþörf á sviðum mannvirkja- og húsnæðismála með hliðsjón af húsnæðisstefnu, landsskipulagsstefnu og loftslagsmarkmiðum Íslands, sbr. aðgerð 9 í þingsályktun um aðgerðaáætlun í málefnum hönnunar og arkitektúrs fyrir árin 2023–2026. Líta þarf til þverfaglegs samstarfs ólíkra fræðasviða sem snerta mannvirkjagerð, svo sem félagsvísinda, hugvísinda, tæknivísinda, verkfræði, skipulagsvísinda, arkitektúrs, heilbrigðisvísinda, hagvísinda o.s.frv.
Meðlimir Vísindaráðs á fyrsta fundi sínum þann 22. apríl 2024.
Um leið mun vísindaráðið marka stefnu um rannsóknir í húsnæðis- og mannvirkjamálum til lengri og skemmri tíma. Við mótun hennar þarf vísindaráðið meðal annars að horfa til hamfarahlýnunar, aðlögunar mannvirkja að breyttu loftslagi og breyttri samfélagsgerð, raka- og mygluskemmda, þróunar á nýjum byggingarefnum og byggingarstíl, algengustu byggingargalla og hringrásarhagkerfisins. Samhliða verður gerð sérstök greining af hálfu Skipulagsstofnunar á rannsókna- og nýsköpunarumhverfi skipulagsmála og í framhaldinu skoðaðir snertifletir mannvirkja- og skipulagsmála í þeim efnum.
Þá mun ráðið líta til starfa Vísinda- og nýsköpunarráðs sem starfar samkvæmt lögum um Vísinda- og nýsköpunarráð og fjallar um stöðu vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar á Íslandi.
Vísindaráðið mun vinna náið með HMS en stofnunin mun tryggja samfellu í starfi ráðsins, birta rannsóknastefnuna hverju sinni, styðja við innleiðingu hennar og hafa yfirsýn yfir stöðu rannsókna. HMS mun jafnframt birta niðurstöður rannsókna og miðla með markvissum hætti út frá miðlægum grunni, í samræmi við aðgerð 1.1.b. í áðurnefndum vegvísi.
HMS setti vísindaráðið á fót með fulltrúum vísindasamfélags, stjórnvalda og atvinnulífs. Það starfar á grunni 2. mgr. 3. gr. laga um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, sem segir að stofnunin skuli stýra formlegum samráðsvettvangi með hagsmunaaðilum með það að markmiði að auka samstarf um gerð og öryggi mannvirkja.
Fulltrúar í vísindaráðinu eru með afar fjölbreyttan bakgrunn en gengið er út frá því að þeir starfi í þéttu samráði við þeirra bakland. Allir tíu fulltrúar ráðsins eru taldir upp hér að neðan, en þeir koma frá vísindasamfélaginu, atvinnulífinu, og stjórnvöldum.
Fulltrúar frá vísindasamfélagi:
- Ólafur Sveinn Haraldsson, PhD, byggingarverkfræðingur, f.h. Háskóla Íslands.
- Próf. Ólafur Wallevik, PhD, f.h. Háskólans í Reykjavík.
- Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, líffræðingur, f.h. Betri bygginga.
Fulltrúar frá atvinnulífi:
- Halldór Eiríksson, arkitekt, f.h. Samark og AÍ.
- Kristín Þrastardóttir, umhverfisverkfræðingur, gæðastjóri Eykt.
- Sandra Rán Ásgrímsdóttir, sjálfbærniverkfræðingur, f.h. FRV og VFÍ.
- Sigríður Ósk Bjarnadóttir, PhD, byggingarverkfræðingur, framkvæmdastjóri hjá Hornsteini.
Fulltrúar frá stjórnvöldum:
- Gústaf A. Hermannsson, byggingareðlisfræðingur, HMS.
- Þórunn Sigurðardóttir, byggingarverkfræðingur, teymisstjóri hjá HMS.
- Ævar Harðarson, PhD, arkitekt, Reykjavíkurborg.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS