17. janúar 2025
31. desember 2022
Verðmat fasteigna hækkar um 2.100 milljarða milli ára
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Í dag, 31. desember, tekur nýtt fasteignamat gildi en í því felst áætlað verðmat allra fasteigna hér á landi. Alls eru um 220 þúsund fasteignir á Íslandi og jókst verðmæti þeirra talsvert milli ára, eða um 2.100 milljarða króna. Sérfræðingar fasteignaskrár HMS mátu allar fasteignir landsins, bæði íbúðarhús og atvinnuhúsnæði og heildarvirði þeirra telst vera 12.800 milljarðar króna. Þetta jafngildir 33 milljónum króna á hvern íbúa á Íslandi eða um 42 milljónir á hvern íbúa sem er 18 ára og eldri.
Á að gefa raunhæfa mynd af verðmæti fasteigna
Fasteignamatið er endurmetið árlega og var matið, sem nú tekur gildi, fyrst kynnt fasteignaeigendum í júní og miðaðist við gangverð fasteigna í febrúar 2022. Verðþróun það sem eftir lifir af árinu kemur ekki inn í matið fyrr en árið á eftir. Fjölmörg tól og gagnabankar nýtast við verðmatið en aðferðafræðin sem notuð er við fasteignamatið á að gefa raunhæfa mynd af verði fasteigna. Meðal annars er horft til nýlegra viðskipta með sambærilegt húsnæði á hverjum stað. Frestur til að gera athugasemd við nýja fasteignamatið rann endanlega út í gær, 30. desember.
Fasteignamatið er mikilvægt tæki fyrir annars vegar fjármálastofnanir, sem líta til þess við lánveitingar til íbúðakaupa og hins vegar fyrir sveitarfélög, sem miða gjaldtöku sína við það, en fasteignagjöld eru oft í kringum 10-20% af árlegum skatttekjum sveitarfélaga.
Stuðningsaðgerðir vegna kjarasamninga fjölga þeim sem fá vaxabætur
Þá er einnig stuðst við fasteignamatið við útreikning vaxtabóta af hálfu ríkisins og getur hækkun matsins haft þau áhrif að sumir missi rétt til bóta, ef að nýuppfærð eignastaða þeirra skerðir bæturnar að fullu. Á móti kemur að ríkisstjórnin kynnti nýverið að eignaskerðingarmörk í vaxtabótakerfinu muni hækka um 50% í byrjun árs 2023 sem leiðir til þess að fleiri munu fá vaxtabætur en hefðu ella fengið eftir gildistöku nýja fasteignamatsins. Um var að ræða eina af stuðningsaðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna nýgerðra kjarasamninga.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS