16. apríl 2025
15. júlí 2020
Vegna umfjöllunar um staðsetningu nýs eldvarnasviðs Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) á Sauðárkróks vill HMS taka eftirfarandi fram:
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Stefnt er að því að nýtt svið eldvarna taki til starfa á Sauðárkróki 1. október næstkomandi. Alls hafa átta stöður verið auglýstar, þar á meðal starf framkvæmdastjóra sviðsins og starf sjö sérfræðinga.
Stefnt er að því að nýtt svið eldvarna taki til starfa á Sauðárkróki 1. október næstkomandi. Alls hafa átta stöður verið auglýstar, þar á meðal starf framkvæmdastjóra sviðsins og starf sjö sérfræðinga.
Á Sauðárkróki er í dag staðsett öflug starfsstöð HMS þar sem fyrir starfa 22 af starfsmönnum stofnunarinnar en verða samtals um 30 þegar eldvarnarsvið tekur til starfa. Verður það um þriðjungur starfsmanna HMS sem er sambærilegt hlutfall starfsmanna og störfuðu á starfsstöð Íbúðalánasjóðs á Sauðárkróki fyrir sameininguna við Mannvirkjastofnun um síðustu áramót.
Fjórir starfsmenn sinna nú þessum málaflokki sérstaklega hjá HMS í deild brunavarna. Engin störf hafa verið lögð niður í deildinni og allir starfsmennirnir eru enn við störf. Tveir starfsmenn deildarinnar hafa þegið störf á sviði öryggis mannvirkja HMS í Reykjavík og áfram má því leita í reynslubrunn þeirra á komandi árum. Tveir starfsmenn brunavarnardeildar hafa sagt upp störfum sínum vegna fyrirhugaðs flutnings og munu láta af störfum á næstu mánuðum. Báðir þessir aðilar hafa sýnt áhuga á að starfa áfram með stofnuninni í sérstökum verkefnum þar til nýtt eldvarnasvið hefur tekið til starfa á Sauðárkróki og lengur ef þurfa þykir til að tryggja framgang verkefna og yfirfærslu þekkingar.
Áhersla hefur verið lögð á að standa vel og faglega að ráðningum á sviðið og leitað hefur verið aðstoðar sérfræðinga í ráðningum og mannauðsmálum í því ferli. Átta umsækjendur voru um stöðu framkvæmdastjóra nýs eldvarnarsviðs og eru þær umsóknir enn í úrvinnslu. Í þeim hópi eru margir vel hæfir einstaklingar sem uppfylla ströngustu hæfnikröfur. Aðrar stöður á sviðinu hafa verið auglýstar og rennur umsóknarfrestur út 30. júlí. Um er að ræða allt að sjö stöður sérfræðinga. Áhersla er lögð á að ráðinn verði hópur með fjölbreytta reynslu og bakgrunn. Enginn afsláttur er veittur af hæfniskröfum heldur er um að ræða mörg mismunandi störf sem krefjast mismunandi hæfni, reynslu og þekkingar bæði á sviði brunavarna og byggingahönnunar, verkfræði og tæknifræði en einnig á sviði slökkvistarfs og forvarnastarfs, fræðslu- og útgáfustarfsemi.
HMS veit af eigin reynslu, og af reynslu annarra stofnanna með starfsemi á landsbyggðinni, að þar má finna úrval af hæfu starfsfólki til að sinna störfum af þessu tagi, sem meðal annars felast í skipulagningu, samræmingu, fræðslu og stefnumótun. Það er ekki rétt að þá þekkingu sem til þarf sé aðeins að finna á höfuðborgarsvæðinu. Eldsvoðar eiga sér stað um allt land og starfsemi HMS á sviði eldvarna er einnig um allt land.
Vandlega hefur verið staðið að undirbúningi að stofnun nýs eldvarnarsviðs HMS og flutningi þess á Sauðárkrók. Sérstaklega hefur verið hugað að þeim þætti sem snýr að mannauðsmálum í ferlinu og undirbúningi flutnings og hefur mannauðsstjóri HMS tekið virkan þátt í undirbúningi flutningsins og framkvæmd. Gott samkomulag er við alla núverandi starfsmenn brunavarnadeildar í Reykjavík um að þeir sinni sínum verkefnum í brunamálum þar til nýir aðilar hafa komið til starfa og tekið við keflinu og yfirfærsla þekkingar er þar með tryggð.
Sérfræðingur í breytingastjórnun hefur unnið með stjórnendateymi HMS frá því undirbúningur að samruna Íbúðalánasjóðs og Mannvirkjastofnunar hófst síðast liðið haust. Þessi aðili hefur leitt vinnu við úttekt á stöðu brunamála sem greint hefur verið frá í sérstakri skýrslu sem kynnt var 28.05.2020.
Í skýrslunni kemur m.a. fram að þrátt fyrir að Ísland sé framarlega í samanburði við önnur lönd hvað varðar lítinn fjölda mannsskaða vegna bruna séu mörg tækifæri til úrbóta sérstaklega hvað varðar samræmingu og eftirlit. Í skýrslunni eru gerðar sjö tillögur til úrbóta auk þess sem skilgreindir eru meginferlar eldvarnarsviðs HMS og gerð tillaga að stefnu og framtíðarsýn til 2023. Úrbótatillögurnar í skýrslunni eru:
- Efla samræmingu og samhæfingu slökkviliða smærri byggða um allt land til þess að auka afkastagetu brunavarna.
- Útvíkka starfssvið Brunamálasjóðs og tryggja honum fjármagn (t.d. hluta af byggingaöryggisgjaldi sem innheimt er með öllum brunatryggingum) til þess að koma að fjármögnun samræmingar verkefna og eftir atvikum brunavarnarsamlaga).
- Efla starfsnám slökkviliða með t.d. samstarfi við menntaskólastigið og endurskoðun á reglugerð um Brunavarnarskólann.
- Gera átak í gerð brunavarnaáætlana og auka aðstoð HMS og samstarf við sveitarfélög og efla eftirfylgni með gerð brunavarnaráætlana.
- Koma á virki eftirliti með starfsemi slökkviliða um allt land m.a. með aukinni áherslu á stafræna stjórnsýslu.
- Stórefla eftirlit með brunavarnakerfum mannvirkja og þjónustuaðilum brunavarnakerfa.
- Byggja upp markaðseftirlit með nothæfi byggingavara
Það er staðreynd, sem er vel þekkt meðal þeirra sem til málaflokksins þekkja, að löngu tímabært er að efla brunavarnir á vegum ríkisvaldsins. Fjárveitingar hafa ekki hrokkið til að sinna lögbundnum verkefnum með sóma. Þetta kemur skýrt fram í framangreindri skýrslu starfshóps HMS. Það er því ekki rétt að verið sé að veikja eftirlitshlutverk stofnunarinnar í brunamálum heldur er þvert á móti ætlunin að stórefla það.
Áætlanir HMS gera ekki ráð fyrir auknum kostnaði vegna staðsetningar deildarinnar á Sauðárkróki. Aukið fjármagn til málaflokksins mun hins vegar sjást í bættum forvörnum, betri menntun slökkviliðsmanna og markvissara eftirliti og samstarfi. HMS hefur meðal annars lagt til að félags- og barnamálaráðherra skipi nefnd um framtíð Brunamálaskólans með aðkomu hagsmunaaðila.
Flutningur eldvarnasviðs HMS til Sauðárkróks er vandasamt verkefni sem starfsmenn og stjórnendur HMS takast á við af fullri alvöru og ábyrgð. Það eru ávallt áskoranir sem fylgja breytingum eins og þessum en í þeim felast einnig margvísleg tækifæri. Það liggur fyrir að stórefla þarf brunavarnir á öllum sviðum stjórnsýslunnar. Telur HMS að grunnurinn að því að vel takist til sé að allir sem að málaflokknum koma vinni vel saman og er það von stjórnenda HMS að allir hagsmunaaðilar sameinist í að bæta stöðuna í málaflokknum. Það er yfirlýst stefna stjórnvalda að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni og það er ekkert sem bendir til þess að eldvarnasvið HMS geti ekki sinnt verkefnum sínum jafn vel frá starfsstöð HMS á Sauðárkróki rétt eins og frá Reykjavík.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS