10. júlí 2025
27. maí 2021
Uppfærð íbúðaþarfagreining HMS
Húsnæðisþörf jókst þrátt fyrir metár í byggingu íbúða
Hagdeild HMS hefur uppfært íbúðaþarfagreiningu sína sem gefin var út í upphafi árs og gerir nú ráð fyrir að óuppfyllt íbúðaþörf hafi aukist um 500 íbúðir. Er þörfin nú metin 4.450 íbúðir í stað 3.950 áður. Þetta kemur í kjölfar uppfærðrar mannfjöldaspár frá Hagstofunni þar sem íbúar landsins reyndust vera um 1.000 fleiri en gengið var út frá í fyrri greiningu.
Þrátt fyrir að óuppfyllt íbúðaþörf hafi aukist þá helst langtímaspá hagdeildarinnar um íbúðaþörf til ársins 2030 óbreytt, þ.e. að hér þurfi að byggja 27.000 nýjar íbúðir, eða 2.950 íbúðir á ári. Það má rekja til þess að fleiri íbúðir komu á markað í fyrra en gert var ráð fyrir og sömuleiðis er útlit fyrir að fleiri íbúðir komi á næstu tveim árum en upphaflega var talið. Það mun því takast að vinna meira á óuppfylltu íbúðaþörfinni í ár og á næsta ári en fyrri spá gerði ráð fyrir, eins og sést á myndinni að ofan. Hún eykst svo aftur áður samkvæmt greiningunni en lækkar svo aftur og verður að fullu uppfyllt árið 2030.
Spá um íbúðaþörf til ársins 2030 sýnir að byggja má meira á næstu árum
Samkvæmt greiningu HMS verða byggðar rúmlega þrjú þúsund íbúðir hér á landi á þessu ári og því næsta sem ætti að uppfylla þörfina fyrir nýjar íbúðir á ársgrundvelli. Á móti kemur að í mannfjöldaspá Hagstofunnar er gert ráð fyrir meiri fjölgun fólks á næstu árum, 2021-2025, en á síðari hluta spátímabilsins. Það þyrfti því jafnvel að byggja fleiri íbúðir á næstu árum en spáin gerir ráð fyrir til þess að saxa á fyrirséða óuppfyllta íbúðaþörf.
Sviðsmynd af þörfinni og íbúðauppbyggingu til ársins 2030 má sjá á myndinni hér að neðan. Þar sést að íbúðaþörfin nær hámarki árið 2025 en fer minnkandi eftir það og er svo komin niður í núll árið 2030 miðað við að byggðar séu að jafnaði 2.950 íbúðir á ári.
Íbúðauppbygging til næstu ára er í ágætum farvegi en líkt og greiningin sýnir þá má vel gefa í og byggja umfram þessar 3.000 íbúðir sem spáð er að komi á markað á næstu tveim árum til að mæta uppsafnaðri þörf fyrir íbúðir fyrr. Til þess að það megi verða þá þurfa byggingaraðilar að geta byggt meira og það þýðir að lóðir þurfa að standa til boða. Umræðan um lóðaskort hefur risið reglulega og hann sagður helst standa í vegi fyrir íbúðauppbyggingu. Þessi uppfærða greining ætti að vera sveitarfélögum hvatning til að vera með tilbúnar lóðir til úthlutunar svo hægt sé að bæta í og byggja meira. Enda hefur þörf fyrir íbúðir sjaldan verið meiri en nú. Þessi mikla óuppfyllta þörf hefur verið viðvarandi frá árinu 2016 þrátt fyrir að það hafi verið eitt mesta uppbyggingarskeið í sögu landsins.
Íbúðaþarfagreining 2021-2030
Skýrsluna má lesa í heild sinni hér