20. mars 2024

Þrýstingur eykst á íbúðamarkaði í kjölfar fasteignakaupa Grindvíkinga

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Ný vísitala íbúðaverðs og meðalverð úr kaupsamningum benda til skarprar verðhækkunar á  íbúðum í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins
  • Velta á íbúðamarkaði nálægt höfuðborgarsvæðinu hefur ekki aukist jafnmikið á milli mánaða frá upphafi mælinga HMS í janúar 2014
  • HMS telur að íbúðakaup Grindvíkinga hafi haft áhrif á fasteignamarkaðinn í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og gætu áhrifin orðið meiri á næstu mánuðum

Íbúðamarkaðurinn í nágrenni höfuðborgarsvæðisins tók kipp í febrúar með miklum verðhækkunum og mikilli fjölgun kaupsamninga. HMS telur að áhrifin megi rekja til íbúðakaupa Grindvíkinga í mánuðinum og að íbúðakaupin muni ýta undir verðþrýstingi á markaði næstu mánuði.

Ný vísi­tala og kaup­samn­ing­ar sýna hrað­ar verð­hækk­an­ir

Líkt og HMS tilkynnti í gær hækkaði ný og gæðaleiðrétt vísitala íbúðaverðs á landinu öllu um 1,9 prósent á milli mánaða í febrúar. Þar vó verðhækkun á fjölbýlishúsum þungt, en undirvísitala fjölbýlishúsa á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um  2,1 prósent á milli mánaða, á meðan undirvísitala fjölbýlishúsa á landsbyggðinni hækkaði um 6,4 prósent á milli mánaða.

Hafa ber í huga að ný vísitala íbúðaverðs og undirvísitölur hennar taka nokkrum sveiflum á milli mánaða, líkt og myndin hér að neðan sýnir. Hins vegar bendir þróun vísitölunnar til hraðari verðhækkana á síðustu mánuðum.

 
Ef litið er til útgefinna kaupsamninga í nágrannasveitarfélögum má einnig sjá skarpar verðhækkanir, en þar hækkaði meðalverð á seldri íbúð úr 61,6 milljónum króna í janúar í tæpar 65 milljónir króna í febrúar. Mest hefur verðhækkunin orðið á sérbýlishúsum á svæðinu, en meðalkaupverð þeirra hefur hækkað úr 68 milljónum króna í nóvember 2023 í tæpar 80 milljónir króna í febrúar 2024.

Á höfuðborgarsvæðinu hækkaði meðalverð í kaupsamningum einnig, en þó með mun minna móti. Meðalkaupverðið nam 78,3 milljónum króna í febrúar, miðað við 78 milljónir króna í janúar.

Kaup­samn­ing­um fjölg­ar og velt­an eykst

Mun fleiri kaupsamningar voru gefnir út í febrúar heldur en í janúar í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Fjöldi þeirra rúmlega tvöfaldaðist á tímabilinu, eða úr 74 í janúar í 164 í febrúar. Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði kaupsamningum einnig, úr 332 í janúar í 491 í febrúar.

Vegna hærra verðs og fleiri kaupsamninga jókst veltan töluvert á íbúðamarkaði á milli mánaða í febrúar, eða úr 26 í 38 milljarða á höfuðborgarsvæðinu og úr 5 í 11 milljarða í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Veltan hefur ekki aukist jafnmikið á milli mánaða í nágrenni höfuðborgarsvæðisins frá upphafi mælinga HMS í janúar 2014.

Íbúða­kaup Grind­vík­inga gætu haft áhrif á næstu mán­uð­um

HMS telur að aukin virkni á íbúðamarkaðnum á suðvesturhorninu sé tilkomin vegna íbúðakaupa Grindvíkinga í febrúar, en Alþingi samþykkti lög um kaup ríkisstjórnarinnar á íbúðarhúsnæði í bænum þann 23. febrúar. Tæplega 900 íbúðaeigendur sem áttu lögheimili í Grindavík geta því selt fasteignir sínar til ríkisins og keypt aðra íbúð á fasteignamarkaði.

Íbúðakaup Grindvíkinga geta aukið verðþrýsting á íbúðum íbúðamarkaði í nágrenni höfuðborgarsvæðis á næstu mánuðum. HMS mun fylgjast með stöðunni og greina frá henni eftir því sem nýjar upplýsingar af berast af íbúðamarkaði.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS