19. mars 2024

HMS kynnir nýja vísitölu íbúðaverðs fyrir allt landið

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Ný vísitala íbúðaverðs hækkaði um 1,9 prósent á milli mánaða í febrúar og hefur hún hækkað um 5,7 prósent á síðustu tólf mánuðum
  • Með nýju vísitölunni má sjá verðþróun eftir landssvæðum og íbúðaflokkum, en gamla vísitalan sýndi einungis verðþróun á höfuðborgarsvæðinu
  • Nýja vísitalan endurspeglar betur verðsveiflur á milli mánaða og hefur breyting á vísitölum ekki áhrif á verðbólgumælingar Hagstofu

Ný vísitala íbúðaverðs var 101,9 í febrúar 2024 og hækkaði um 1,9 prósent á milli mánaða. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi vísitala er birt en 100 gildi hennar miðar við janúar 2024.

Ásamt vísitölu fyrir landið allt gefur HMS nú út fjórar undirvísitölur íbúðaverðs, en þær eru fyrir sérbýli og fjölbýli, bæði á höfuðborgarsvæðinu á landsbyggðinni. Gildi vísitalnanna, ásamt hækkun þeirra á milli mánaða og tólf mánaða hækkun, má sjá í töflunni hér að neðan, en hægt er að nálgast gildi þeirra frá janúarmánuði 2023 með því að smella á þennan hlekk.

Vísi­tala íbúða­verðs febr­ú­ar 2024

VísitalaGildi í febrúar 2024Hækkun á milli mánaða12 mánaða hækkun
Íbúðaverð101,91,9%5,7%
Sérbýli á hbs.101,11,1%7,2%
Sérbýli á landsbyggðinni101,41,4%4,2%
Fjölbýli á hbs.102,12,1%4,9%
Fjölbýli á landsbyggðinni106,46,4%8,5%

Nýja vísi­tal­an end­ur­spegl­ar bet­ur verð­sveifl­ur á milli mán­aða

Á mynd hér að neðan má sjá nýja vísitölu íbúðaverðs bakreiknaða frá janúar 2023. Líkt og myndin sýnir má greina einhverjar sveiflur á milli mánaða í nýju vísitölunni á tímabilinu. Þar sem vísitalan byggir einungis á gögnum síðastliðins mánaðar tekur hún hraðar við sér ef markaðurinn hreyfist heldur en eldri vísitala sem notaðist við upplýsingar síðastliðinna þriggja mánaða.

Nýja vísitalan er gæðaleiðrétt, sem þýðir að breytingar á milli mánaða í „gæðum“ seldra eigna ætti ekki að hafa áhrif á þróun vísitölunnar. Þannig ætti vísitalan til dæmis ekki að taka breytingum ef hátt meðalkaupverð í einum mánuði skýrist af háu hlutfalli nýlegra eigna eða öðrum eiginleikum sem tekið er tillit til í fasteignamati. Gæðaleiðréttingin byggir á fasteignamati eigna, þannig vísitalan hækkar ef hlutfall kaupverðs og fasteignamats seldra eigna hækkar milli mánaða.

Með afnámi á þriggja mánaða meðaltali íbúðaverðs og innleiðingar gæðaleiðréttingar telur HMS að ný vísitala íbúðaverðs endurspegli betur verðsveiflur í rauntíma en sú gamla.

Þar sem vísitalan mælir ekki það sama og eldri vísitölur sem HMS hefur gefið út er ekki mælt með því að tengja þær saman nema sérstaklega sé tekið tillit til ólíks eðlis vísitalnanna. Margt er frábrugðið í útreikningsaðferðum nýrri og eldri vísitölu. T.a.m. eru mismunandi löng tímabil lögð til grundvallar, í nýrri vísitölu er gæðaleiðrétt kaupverð vegið með tilliti til heildarfasteignamats í hverjum flokki en eldri vísitalan byggir á fermetraverði vegnu með tilliti til veltu.

HMS áréttar að breyting á vísitölu íbúðaverðs hefur ekki áhrif á verðbólgumælingar Hagstofu. Verðbólgumælingarnar eru byggðar á útreikningum Hagstofu á reiknaðri húsaleigu sem eru ótengdar mælingum HMS.

For­­­­­send­­­­­ur

Vísitalan byggir á kaupsamningum síðastliðins mánaðar um íbúðareignir á landinu öllu. Hún inniheldur fjórar undirvísitölur, en þær eru fyrir sérbýli á höfuðborgarsvæðinu, sérbýli á landsbyggðinni, fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu og fjölbýli á landsbyggðinni.
Kaupsamningarnir eru útlagagreindir, þar sem bæði eðli og tölfræðilegar upplýsingar hvers kaupsamnings eru tekin til hliðsjónar.

HMS útbýr einnig svokallað gæðaleiðrétt kaupverð með því að deila kaupverði hverrar fasteignar með fasteignamati hennar.
Vísitala íbúðarverðs er fundin með því að reikna vegið meðaltal af gæðaleiðréttu kaupverð fjölbýla annars vegar og sérbýla hins vegar í hverjum landshluta eftir hlutdeild í heildarfasteignamati íbúðareigna landsins. Undirvísitölurnar eru svo búnar til með því að hópa saman landshluta.

Birtingu vísitölunnar er ætlað að varpa ljósi á þróun fasteignaverðs samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir á hverjum tíma. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun áskilur sér rétt til að endurskoða vísitöluna aftur í tímann í ljósi fyllri gagna eða fágaðri aðferðafræði. Vísitalan er ekki ætluð til að verðtryggja fjárskuldbindingar.

Hér er hægt að nálgast upplýsingar um eldri vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu frá 1994.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS