14. mars 2025
12. mars 2025
Slökkvilið landsins sinntu 2.631 verkefnum árið 2024
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Verkefni slökkviliða árið 2024 voru 2.631 í heildina. Eru þar talin með bæði lögbundin verkefni slökkviliða og önnur verkefni sem slökkviliðin taka að sér. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í tölfræði úr útkallskýrslugrunni slökkviliða sem HMS hefur unnið tölfræðiupplýsingar úr fyrir árið 2024.
Slökkvilið landsins sinna fjölbreyttum og krefjandi verkefnum þegar kemur að slökkvi- og björgunarþjónustu sveitarfélaga. Dæmi um verkefni sem eru lögbundin eru m.a. slökkvistarf og reykköfun, björgun á fastklemmdu fólki t.d. vegna umferðarslysa, eldvarnareftirlit og forvarnir. Flest slökkvilið sinna einnig öðrum verkefnum, t.d. sjúkraflutningum, slökkvitækjaþjónustu og björgunarstörfum.
Fjölgun bruna í byggingum
Slökkvilið landsins sinntu alls 265 útköllum vegna eldsvoða í byggingum árið 2024. Aukning er í verkefnum sem varða eldsvoða í byggingum og hafa þau aukist um 7 prósent á síðastliðnum fimm árum.
Eins og sjá má á grafinu hér að ofan hefur fjöldi fasteigna aukist hlutfallslega meira en fjöldi bruna í byggingum sem ýtir undir mikilvægi hertari reglna er varða brunavarnir í mannvirkjum.
Fjöldi útkalla á hæsta forgangi fleiri á landsbyggðinni
Útköll vegna umferðaslysa hafa aukist um 11 prósent síðastliðin fimm ár.
Árið 2024 var fjöldi umferðaslysa þar sem slökkvilið voru kölluð á slysstað svipuð á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Þó fjöldi tilfella sé svipaður þá eru tilfelli með hæsta forgang fleiri á landsbyggðinni eða um 34 prósent meiri.
Tveir létust í tveimur aðskildum brunum í fyrra
Tveir létust á Íslandi í brunum árið 2024. Bæði tilfellin voru þar sem fólk dvelur, annarsvegar í heimahúsi og hins vegar á stofnun.
Heildarupphæð bættra brunatjóna árið 2024 nam 4,7 milljörðum króna og var 30 prósent lægri en árið 2023.
Árlega tekur HMS saman yfirlit yfir eignatjón vegna eldsvoða er byggir á gögnum frá tryggingafélögum. Niðurstöður úr þeirri samantekt má sjá á mynd hér að neðan, sem sýnir heildarumfang bættra brunatjóna frá tryggingafélögunum á hverju ári.
Hér að neðan sést skipting tjóna árið 2024 milli atvinnuhúsnæðis, heimila og annað/óskilgreint. Þar sést að atvinnuhúsnæði eru með stærstu upphæðirnar og flest tilfelli.
Markvisst hefur verið unnið að bættum brunavörnum á Íslandi síðustu áratugi. HMS mun halda áfram á þeirri vegferð að bæta brunavarnir á Íslandi til að tryggja öryggi fólks og eignaöryggi.
Nauðsynlegt er að fólk hugi vel að brunavörnum í nærumhverfi sínu til að lágmarka líkur á bruna. HMS sinnir öflugu fræðslu og forvarnarstarfi á sviði brunavarna og inni á vefnum Vertu eldklár má nálgast forvarnar- og fræðsluefni varðandi brunavarnir heimilisins.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS