26. ágúst 2020

Sex starfsmenn ráðnir á nýtt brunavarnasvið HMS

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

Framkvæmdastjóri, forvarnafulltrúi og fjórir sérfræðingar taka til starfa á nýju sviði á starfsstöð HMS á Sauðárkróki.

  • Framkvæmdastjóri, forvarnafulltrúi og fjórir sérfræðingar taka til starfa á nýju sviði á starfsstöð HMS á Sauðárkróki.
  • Gert er ráð fyrir að alls muni átta starfsmenn starfa við brunavarnir hjá HMS sem er tvöföldun mannafla í málaflokknum.
  • Fimm af sex nýju starfsmönnunum munu flytjast á Sauðárkrók á næstu mánuðum ásamt fjölskyldum sínum en einn starfsmannanna býr þar nú þegar.
  • Í kjölfar skýrslu starfshóps HMS um brunavarnir, sem kynnt var í maí, sagði Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, að til stæði að að fjölga starfsfólki og verja auknu fjármagni til að tryggja viðunandi eftirlit með brunavörnum sveitarfélaga og landsins alls.
  • HMS hefur boðað átak í brunavörnum sem verður ýtt úr vör samhliða stofnun brunavarnasviðsins þann 1. október nk. Hávært ákall er um úrbætur í kjölfar nokkurra alvarlegra bruna hér á landi að undanförnu.

Nýtt svið brunavarna hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun mun taka til starfa á Sauðárkróki 1. október næstkomandi.  Tilkynnt var um flutning starfseminnar til Sauðárkróks í byrjun sumars en flutningurinn er liður í áformum ríkisstjórnarinnar um að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni.

Ráðið í stöðu framkvæmdastjóra, sérfræðinga og forvarnarfulltrúa

Staða framkvæmdastjóra þessa nýja sviðs var auglýst í byrjun júní og í byrjun júlí voru auglýstar stöður sérfræðinga á sviði brunavarna og slökkvistarfs og staða forvarnafulltrúa.  Lokið hefur verið við að ráða í lykilstöður og því ljóst að nýtt svið mun geta hafið starfsemi á Sauðárkróki 1. október samkvæmt áætlun. Alls bárust á þriðja tug umsókna um störfin.

Þorgeir Óskar Margeirsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri brunarvarnasviðs HMS og hefur hann þegar hafið störf. Þorgeir er með B.Sc. gráðu í byggingaverkfræði frá Háskóla Íslands og framhaldsnám (Dipl. Ing.) í byggingarverkfræði frá Universität Karlsruhe í Þýskalandi. Þorgeir er jafnframt menntaður húsasmíðameistari. Hann starfaði með slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli á árunum 1999-2001. Þar fékk hann mikinn áhuga á öllu sem snýr að öryggismálum, eldvörnum og slökkvistarfi og hefur frá þeim tíma lagt sérstaka áherslu á þá þætti í námi sínu og störfum.

Í framhaldsnáminu sínu í verkfræði lagði Þorgeir sérstaka áherslu á burðarþol, steypu og verkefnastjórnun og fjallaði lokaverkefni hans um áhrif elds á steinsteypu í jarðgöngum.

Þorgeir hefur víðtæka reynslu á sviði stjórnunar og byggingaframkvæmda og hefur starfað sem stjórnandi, verkefnastjóri, hönnunarstjóri og burðarþolshönnuður í umfangsmiklum byggingaframkvæmdum bæði á Íslandi, í Noregi, á Grænlandi, og í Malí og Angóla í Afríku í rúm 20 ár. Hann hefur rekið eigin verkfræðistofu og verið meðeigandi í verktaka- og verkfræðifyrirtækjum á Íslandi og í Noregi, s.s. J. Tufteland AS, Husanes AS, Multi og Togson. Auk þess hefur hann starfað fyrir Lahmeyer, Almennu verfræðistofuna og fleiri. Frá árinu 2017 hefur Þorgeir starfað sem verkefnastjóri framkvæmda hjá byggingarfélaginu Eykt.

Ásgrímur Sveinsson hefur verið ráðinn í stöðu sérfræðings í brunavörnum. Ásgrímur starfar hjá The Danish Institute of Fire and Security Technology í Danmörku og er að ljúka meistaraprófi í verkfræði frá DTU. Hann er menntaður pípulagningamaður og slökkviliðs- og sjúkraflutningsmaður og er með B.Sc. í vélaverkfræði.

Grétar Þór Þorsteinsson hefur verið ráðinn í stöðu sérfræðings í brunavörnum. Hann er umhverfis- og orkutæknifræðingur og vélvirkjameistari. Hann hefur hlotið löggildingu sem hönnuður lagna, loftræstikerfa og burðarvirkja. Síðustu ár hefur Grétar starfað sem verkefnastjóri, við almenna lagnahönnun, hönnun sprinklerkerfa, ráðgjöf, eftirfylgni verkefna, uppsetningu og framkvæmd viðhaldsáætlana fyrir Isavia, OMR verkfræðistofu o.fl.

Stefán Árnason hefur verið ráðinn í stöðu sérfræðings í slökkvistarfi. Hann er menntaður slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður, er með meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun og B.Sc. gráðu í líffræði. Stefán hefur undanfarin ár starfað hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins en hefur einnig starfað sem gæðastjóri hjá Stolt Seafarm Iceland við innleiðingu gæðastjórnunarkerfis, gæðaeftirlit og viðhald gæðakerfis, fræðslu og þjálfun starfsfólks o.fl.

Þorlákur Snær Helgason hefur verið ráðinn í stöðu sérfræðings í slökkvistarfi. Hann er menntaður slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður og hefur starfað sem aðstoðarslökkvistjóri hjá Brunavörnum Skagafjarðar frá 2018. Áður starfaði Þorlákur sem þjónustustjóri hjá Isavia á Akureyrarflugvelli og rekstrarstjóri hjá Öryggismiðstöð Norðurlands. Þorlákur hefur einnig starfað sem leiðbeinandi í sjúkraflutningaskólanum og situr í rannsóknarnefnd samgönguslysa.

Eyrún Viktorsdóttir hefur verið ráðin í stöðu forvarnafulltrúa brunavarnasviðsins. Hún er lögfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og hefur að auki lagt stund á nám í líffræði. Eyrún starfaði áður sem lögfræðingur og verkefnastjóri viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish og lögfræðingur hjá Dattaca Labs sem sérfræðingur í persónuvernd. Í störfum sínum hefur Eyrún komið að almannatengslum, kynningar- og fræðslumálum og greinaskrifum.

---

Nýja brunavarnasviðið verður tvöfalt stærra en það gamla. Tveir starfa áfram hjá HMS.Hlutverk hins nýstofnaða brunavarnasviðs verður að stýra og stóraefla brunavarnir á vegum ríkisvaldsins. Fjórir starfsmenn sinna nú þessum málaflokki sérstaklega hjá HMS í deild brunavarna í Reykjavík. Tveir starfsmenn deildarinnar hafa þegið störf á nýju sviði öryggis mannvirkja hjá HMS og munu þeir starfa áfram hjá HMS í Reykjavík. Sex starfsmenn munu hefja störf á brunavarnasviði á Sauðárkróki í haust og gert er ráð fyrir að átta starfsmenn muni sinna þessum verkefnum á Sauðárkróki þegar sviðið verður full mannað á næstu mánuðum.

Á Sauðárkróki er í dag staðsett öflug starfsstöð HMS þar sem fyrir starfa um 20 af starfsmönnum stofnunarinnar. Starfsmenn á Sauðárkróki verða samtals um 30 þegar brunavarnarsvið tekur til starfa. Fyrir flutning brunavarnasviðsins var kynjahlutfallið á starfsstöð HMS á Sauðárkróki 80% konur á móti 20% körlum en verður jafnara eftir hann, eða 65% konur á móti 35% körlum.

Fimm af sex nýju starfsmönnunum munu flytjast á Sauðárkrók á næstu mánuðum ásamt fjölskyldum sínum. Einn er nú þegar búsettur þar. Það er því ljóst að þessi breyting mun hafa umtalsverð og jákvæð áhrif á íbúafjölda og mannlífið í Skagafirði. Það er jafnframt ánægjulegt að segja frá því að með þessari breytingu voru sköpuð atvinnutækifæri sem gera nú ungum fjölskyldum mögulegt að snúa til starfa í sinni gömlu heimabyggð þar sem þau ólust upp.

 

HMS hyggst efna til átaks í brunavörnum í haustÍ skýrslu starfshóps HMS um brunavarnir, sem stofnaður var í byrjun þessa árs og skilaði af sér í maí síðastliðnum, kemur fram að grípa þurfi til margvíslegra aðgerða til að styrkja stjórnsýslu málaflokksins. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, kynnti efni skýrslu starfshópsins á blaðamannafundi á starfsstöð HMS á Sauðárkróki í lok maí og sagði um leið að til stæði að fjölga starfsfólki og verja auknu fjármagni til að tryggja viðunandi eftirlit með brunavörnum sveitarfélaga og landsins alls.

 

Helstu liðir átaksins verða:

  • Komið verði á virku eftirliti með starfsemi slökkviliða um allt land m.a. með aukinni áherslu á stafræna stjórnsýslu.
  • Stóreflt eftirlit verði með brunavarnakerfum mannvirkja og þjónustuaðilum brunavarnakerfa.
  • Efld samræming og samhæfing slökkviliða smærri byggða um allt land til þess að auka afkastagetu brunavarna á þessum stöðum.
  • Efling starfsnáms slökkviliða með samstarfi við menntaskólastigið og endurskoðun á umgjörð Brunavarnarskólans.
  • Átak verði gert í gerð brunavarnaáætlana og aðstoð HMS og samstarf við sveitarfélög aukið við gerð áætlananna.

Boðuðu átaki Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) í brunavörnum verður ýtt úr vör  samhliða stofnun sviðsins þann 1. október næstkomandi. Hávært ákall hefur verið um úrbætur í kjölfar nokkurra alvarlegra bruna hér á landi að undanförnu – kallað hefur verið eftir úrbótum á ýmsum lögum sem snúa að brunavörnum og einnig eftir auknu eftirliti með að þeim sé fylgt. Hið skelfilega manntjón sem varð nýverið hefur beint kastljósinu að þeim dýrkeyptu afleiðingum sem fylgja brunum. HMS hyggst nýta aukna meðvitund almennings gagnvart þeirri hættu sem stafar af brunum til að gera átak í forvörnum og fræðslu samhliða því sem umbætur eru gerðar á regluverkinu og aukinn mannafli sinnir eftirliti og samræmingu brunavarna.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS