26. nóvember 2025

Opin umræða um framtíð íbúðamarkaðar á Austurlandi

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

Opinn fundur um þróun og framtíðarhorfur íbúðamarkaðar á Austurlandi var haldinn fimmtudaginn 20. nóvember í húsnæði Austurbrúar á Reyðarfirði. Fundinn sóttu um 35 manns og skapaðist góð og gagnleg umræða um stöðu húsnæðismála í landshlutanum. Að fundinum stóðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS), samstarfsverkefnið Tryggð byggð og Austurbrú. 

 Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, hóf fundinn með yfirferð um stöðu húsnæðismála í sínu sveitarfélagi. Þá fór Jón Örn Gunnarsson, sérfræðingur húsnæðisáætlana hjá HMS, yfir stöðu íbúðauppbyggingar og húsnæðisáætlanir sveitarfélaga á Austurlandi og greindi helstu áskoranir og tækifæri í landshlutanum. Dagný Geirdal, verkefnastjóri Mannvirkjaskrár hjá HMS, kynnti að lokum innleiðingu stafrænnar stjórnsýslu í byggingarmálum, þar á meðal sameiginlegt umsóknarkerfi fyrir byggingarleyfi og ávinning þess fyrir sveitarfélög og íbúa. 

 Á fundinum var jafnframt skrifað undir viljayfirlýsingu á milli Fjarðabyggðar og HMS, um áframhaldandi uppbyggingu íbúða og eflingu stafrænnar stjórnsýslu. Með yfirlýsingunni er m.a. lagt upp með að leita áfram leiða til að auka aðgengi að fjölbreyttum húsnæðiskosti í Fjarðabyggð, hraða nýbyggingum, bæta yfirsýn yfir íbúðalóðir og efla stafræna stjórnsýslu húsnæðis- og byggingarmála í sveitarfélaginu — aðgerðir sem styðja við markmið um tryggt húsnæðisöryggi og fjölbreyttan íbúðakost á Austurlandi. 

Jóna Árný sagði við þetta tilefni:

„Öruggt og fjölbreytt húsnæði er ein af lykilforsendum þess að fólk velji að búa og setjast að á Austurlandi til lengri tíma. Umræðan á fundinum sýndi að hér er til staðar bæði vilji og kraftur til að flýta uppbyggingu og finna lausnir sem henta ólíkum íbúum á mismunandi æviskeiðum.“

Elmar Erlendsson, framkvæmdarstjóri HMS sagði einnig:

„Með viljayfirlýsingunni stígum við og Fjarðabyggð skýrt skref í átt að hraðari íbúðauppbyggingu, betri yfirsýn yfir lóðir og öflugri stafrænni stjórnsýslu.“

Fundarstjóri var Þuríður Lillý Sigurðardóttir, varaformaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi. Gestum var boðið í léttar veitingar og í samtal við frummælendur að fundi loknum. 

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS