28. mars 2025
28. mars 2025
Nýtt raðhús rís á Hólmavík
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Brák íbúðafélag hses. er að ljúka við byggingu á fjögurra íbúða raðhúsi á Hólmavík í Strandabyggð.
Byggingaraðilinn Búðingar ehf. hóf framkvæmdir við bygginguna í ágúst síðastliðinn. Húsið er byggt úr forsmíðuðum timbureiningum sem fluttar eru á verkstað og er framkvæmdartíminn því einungis tæplega 12 mánuðir. Íbúðirnar eiga að fara í útleigu í byrjun sumars og eru þær ætlaðar fyrir tekju- og eignaminna fólk á vinnumarkaði.
Verkefnið fékk samþykkt stofnframlag í fyrstu úthlutun ársins 2023. Fjármögnun verkefnisins er unnin með stuðningi stofnframlaga ríkis og sveitarfélags ásamt leiguíbúðaláni frá HMS.
Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri í Strandabyggð, leggur áherslu á mikilvægi verkefnisins fyrir samfélagið: „Þessi húsbygging er mjög mikilvæg fyrir Strandabyggð. Hér hefur lengi verið skortur á nýju húsnæði, sérstaklega í þeim flokki sem hér um ræðir og því er þessi bygging mjög kærkomin. Sveitarfélagið stuðlar með aðkomu sinni að verkefninu, að því að hér eru í boði íbúðir og það er eitt af grundvallar hlutverkum hvers sveitarfélags. Við fögnum því byggingunni og horfum jákvæð til frekari samvinnu við Brák og HMS yfir höfuð.“
Brák er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjuminni fjölskyldum aðgengi að íbúðum í langtímaleigu með því að kaupa eða byggja, eiga og hafa umsjón með rekstri og viðhaldi íbúðanna. Í dag eru 35 sveitarfélög um allt land sem eru aðilar að Brák og er félagið með rúmlega 300 íbúðir sem ýmist eru komnar í útleigu eða eru í undirbúningi.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS