15. janúar 2026

Nýtt mælaborð – Verðbil milli fyrstu og annarra kaupenda breikkar

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • HMS hefur birt nýtt mælaborð um fyrstu kaupendur
  • Fyrstu kaupendur greiða lægra heildarverð en hærra fermetraverð fyrir íbúðir en aðrir kaupendur
  • Fyrstu kaupendur keyptu hlutfallslega færri nýjar íbúðir árið 2025 heldur en fyrri ár

Munurinn á kaupverði íbúða hjá fyrstu kaupendum og öðrum kaupendum jókst á síðasta ári, þar sem fyrstu kaupendur keyptu ódýrari og smærri íbúðir. Fyrstu kaupendur voru einnig ólíklegri til að festa kaup á nýrri íbúð á síðasta ári heldur en á árunum 2023 og 2024. Þetta er á meðal þess sem má lesa í nýútgefnu mælaborði HMS um fyrstu kaupendur, sem nálgast má hér að neðan.

Mælaborð um fyrstu kaupendur

Í mælaborðinu er hægt að nálgast upplýsingar um meðalkaupverð, fermetraverð og fjölda kaupsamninga þar sem fyrstu kaupendur eiga í hlut. Hægt er að skoða sögulega þróun eftir mánuðum allt til ársbyrjunar 2007.

Fyrstu kaup­end­ur kaupa smærri íbúð­ir

Kaupendur fyrstu fasteignar greiddu að jafnaði 22 prósentum lægra heildarverð en aðrir kaupendur fyrir þær íbúðir sem keyptar voru á árinu 2025, en nokkrir kaupsamningar eiga enn eftir að bætast við vegna þess tíma sem það tekur að ljúka þinglýsingu. Fyrstu kaupendur greiddu þó lítillega hærra fermetraverð fyrir eignir sínar en aðrir kaupendur.

Þróun meðalkaupverðs eftir tegund kaupenda

Lægra heildarverð og hærra fermetraverð fyrstu kaupenda skýrist að stórum hluta af því að þeir kaupa að jafnaði smærri íbúðir en aðrir kaupendur. Fermetraverð í smærri íbúðum er alla jafna hærra þar sem rými á borð við eldhús og baðherbergi eru hlutfallslega dýrari en önnur rými á borð við ganga og svefnherbergi. Aðrir kaupendur festa gjarnan kaup á stærri eignum í meira mæli sem dregur meðalfermetraverð þeirra niður. Þessi munur getur þó sveiflast á milli mánaða.

Fyrstu kaup­end­ur keyptu nýj­ar íbúð­ir í 17 pró­sent til­fella

Hingað til hafa rúmlega 3.800 kaupsamningum um fyrstu fasteignakaup verið þinglýst á árinu 2025, en vænta má að einhverjir kaupsamningar muni bætast við á næstu vikum vegna tafa á skráningu í kaupskrá HMS. Tæplega 17 prósent þeirra samninga vörðuðu kaup á íbúðum í nýbyggingum. Hlutfallið var 20 prósent árið 2024 og 24 prósent árið 2023.

Meðalkaupverð eftir tegund kaupenda og íbúða

Fyrstu kaupendur greiddu að jafnaði lægra heildarverð en aðrir kaupendur fyrir bæði nýjar og eldri íbúðir, líkt og sjá má á myndinni hér að ofan. Munurinn var þó talsvert meiri þegar um nýjar íbúðir var að ræða. Á sama tíma greiddu fyrstu kaupendur hærra fermetraverð fyrir bæði nýjar og eldri íbúðir, en þar munaði einnig mestu á nýjum íbúðum.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS