1. júlí 2025
19. ágúst 2020
Nýjar tölur Þjóðskrár staðfesta mikil umsvif á fasteignamarkaði
Verðhækkanir í ljósi minnkandi framboðs
Verðhækkanir í ljósi minnkandi framboðs
Í nýrri frétt Þjóðskrár Íslands kemur fram að vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,2% á milli mánaðanna júní og júlí. Á tólf mánaða tímabili hækkaði vísitalan um 4,9%. Verðþróun íbúða í sérbýli leiðir verðhækkanir íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu annan mánuðinn í röð en verð íbúða í sérbýli hækkuðu um 1,4% á milli mánaða og verð á fjölbýli hækkaði um 1,1%. Í júlí var 737 kaupsamningum þinglýst á höfuðborgarsvæðinu sem er ríflega tvöföldun frá mánuðinum á undan þegar 366 kaupsamningum var þinglýst. Þetta staðfestir það sem skammtímavísar hagdeildar HMS hafa verið að sýna í síðustu mánaðarskýrslum. Séu veltutölur skoðaðar kemur í ljós að júlímánuður sá þriðji umfangsmesti síðan í júlí 2015. Styður þetta við að óvenju mikið líf sé á fasteignamarkaði miðað við árstíma og talsverðan samdrátt í efnahagslífinu sökum veirufaraldurs og skýrist það af því að um þessar mundir eru vextir sögulega lágir og úttekt á séreignarsparnaði er opin.
Líkt og fjallað var um í síðustu mánaðarskýrslu HMS, hefur framboð íbúða til sölu á höfuðborgarsvæðinu dregist saman og á meðan eftirspurnin er mikil má búast við verðhækkunum eins og raunin er.