23. apríl 2025

Nýir nemendagarðar að rísa fyrir Menntaskóla Borgarfjarðar

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

Framkvæmdir eru hafnar við nýja nemendagarða fyrir Menntaskóla Borgarfjarðar að Borgarbraut 63 í Borgarnesi. Um er að ræða nýbyggingu sem verður hluti af svokölluðu húsi kynslóðanna – fjölnota íbúðarhúsi sem mun hýsa bæði eldri borgara og nemendur menntaskólans.

Bygging nemendagarðanna er fjármögnuð með stofnframlögum frá ríki og Borgarbyggð ásamt eiginfjárframlagi frá Nemendagörðum MB og leiguíbúðaláni frá HMS.

Verkefnið er samstarfsverkefni Nemendagarða Menntaskóla Borgarfjarðar og Brákarhlíðar fasteignafélags ehf. og munu nemendagarðar skólans kaupa neðstu hæð hússins sem mun hýsa 12 íbúðir fyrir allt að 18 nemendur. Á efri hæðum hússins, það er annarri til fjórðu hæð, verða íbúðir ætlaðar einstaklingum 60 ára og eldri. Með þessu sameinaða húsnæði verður bæði brugðist við aukinni þörf fyrir hagkvæmt húsnæði fyrir eldra fólk og aðstöðu fyrir sífellt fleiri nemendur sem sækja nám við Menntaskóla Borgarfjarðar.

„Þetta hús kynslóðanna mun hafa mikil og jákvæð áhrif fyrir samfélagið hér í Borgarbyggð. Bæði skólafólk og kraftmikið eldra fólk setja sífellt sterkari svip á bæinn. Það eflir allt mannlíf, íþróttastarf og menningu. Það er mikil tilhlökkun að sjá húsið nú vera að rísa,“ segir Stefán Broddi Guðjónsson, sveitarstjóri Borgarbyggðar.

Bragi Þór Svavarsson, skólameistari Menntaskóla Borgarfjarðar, segir verkefnið skipta skólann miklu máli; „Aðsókn hefur farið vaxandi síðustu ár og húsnæðisþörfin verið langt umfram getu. Þessi nýja bygging skiptir skólann miklu máli og styður við áframhaldandi vöxt hans.“

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS