11. nóvember 2024
23. október 2024
Mikil umframeftirspurn eftir hlutdeildarlánum í október
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Andvirði umsókna um hlutdeildarlán nam 1.870 milljónum króna í október, en 800 milljónir króna eru til úthlutunar
- HMS hyggst ljúka yfirferð umsókna fyrir lok vikunnar, en íbúðir utan höfuðborgarsvæðisins eru í fyrsta forgangi
- Opnað verður fyrir umsóknir aftur um hlutdeildarlán í nóvember
Alls bárust HMS 145 umsóknir um hlutdeildarlán í október að andvirði 1.879 milljónir króna, en einungis 800 milljónir króna eru til úthlutunar fyrir tímabilið. Stofnunin stefnir að því að ljúka yfirferð innsendra umsókna í lok þessarar viku og mun svo ákvarða hverjar þeirra hljóta hlutdeildarlán.
Umsóknir að andvirði tæpra tveggja milljarða
HMS opnaði aftur fyrir hlutdeildarlán þann 4. október, en hægt var að sækja um lánin til og með 21. október. Lánin eru veitt til kaupa á nýjum íbúðum og standa þau til boða fyrir fyrstu kaupendur og þá sem ekki hafa átt íbúð síðastliðin fimm ár og eru undir tilteknum tekjumörkum.
Af þeim 145 umsóknum sem bárust um hlutdeildarlán í október voru 112 umsóknir með samþykkt kauptilboð og 33 umsóknir án kauptilboðs. Heildarfjárhæð umsókna í október var um 1.870 milljónir króna og þar af voru umsóknir með samþykktu kauptilboði samtals um 1.447 milljónir króna.
Íbúðir utan höfuðborgarsvæðis í fyrsta forgangi
Í forgangi eru umsóknir þar sem staðfest kauptilboð liggur fyrir, auk þess sem miða skal við að á hverju ári verði að minnsta kosti 20% veittra hlutdeildarlána veitt til kaupa á íbúðum utan höfuðborgarsvæðisins. Ekki verður hægt að gefa út lánsvilyrði fyrr en allar umsóknir hafa verið metnar.
Til úthlutunar fyrir umsóknartímabilið voru 800 milljónir króna og liggur því sem næst fyrir að draga þurfi af handahófi úr umsóknum sem eru utan fyrsta forgangs.
Næsta umsóknartímabil er í nóvember
Opnað verður aftur fyrir nýtt umsóknartímabil hlutdeildarlána í nóvember 2024. Nánari upplýsingar verða veittar síðar.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS