18. júlí 2024

Mánaðarskýrsla hagdeildar HMS fyrir júlí 2024

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

Mánaðarskýrsla HMS fyrir júlí 2024 er komin út, en hana má nálgast með því að smella á hnappinn hér fyrir neðan. Í skýrslunni kemur fram að enn eru mikil umsvif á fasteignamarkaði en kaupsamningar hafa aldrei verið fleiri í einum mánuði. Á leigumarkaði ríkir enn ójafnvægi og áfram mælast miklar hækkanir á leiguverði.

Mánaðarskýrsluna í heild sinni má nálgast hér

Mánaðarskýrsluna í heild sinni má nálgast hér

Kaup­samn­ing­ar aldrei ver­ið fleiri og áfram mikl­ar hækk­an­ir á fast­eigna­verði

Fasteignamarkaðurinn í maí markaðist af uppkaupum íbúða í Grindavík. Umsvif á fasteignamarkaði voru með mesta móti í maí og hafa kaupsamningar í einum mánuði aldrei verið fleiri eða 1.760. Séu kaup Þórkötlu ekki talin með voru kaupsamningar rúmlega 1.300 í maí og hafa ekki verið fleiri síðan í mars 2021. Þá breyta uppkaupin einnig samsetningu kaupendahópsins og auka hlut lögaðila.

Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 1,4 prósent á milli mánaða í júní. Íbúðaverð hefur hækkað um 6,4 prósent frá janúar sem jafngildir um 16 prósent hækkun á ársgrundvelli. Hefur íbúðaverð nú hækkað um 3,1 prósent umfram vísitölu neysluverðs síðustu 12 mánuði.

Hátt hlutfall eigna selst á yfirverði sem gæti bent til áframhaldandi hækkana á verði. Á höfuðborgarsvæðinu seldust um 20 prósent eigna yfir ásettu verði síðustu mánuði en þegar fasteignamarkaður er í jafnvægi má gera ráð fyrir að hlutfallið sé um 10 prósent.

Áfram ójafn­vægi á leigu­mark­aði en kóln­un í ferða­þjón­ustu gæti sleg­ið á fram­boðs­skort

Leigumarkaðurinn ber áfram merki um ójafnvægi milli framboðs og eftirspurnar en vísitala leiguverðs hækkaði um 2,5 prósent í júní og á síðustu þremur mánuðum hefur hún hækkað um 7,4 prósent. Á undanförnum árum hefur staða ferðaþjónustunnar haft þó nokkur áhrif á leigumarkaðinn þar sem ákveðin samkeppni ríkir á milli leigjenda og ferðamanna um mögulegar leiguíbúðir. Á þessu ári hefur framboð á hótelherbergjum aukist á sama tíma og herbergjanýting hefur versnað. Með sömu þróun gæti hvati til skammtímaleigu minnkað sem gæti létt eitthvað á þrýstingi á leigumarkaðnum á komandi misserum.

Til­færsla á lán­um frá heim­il­um til Þór­kötlu

Lánamarkaðurinn varð fyrir áhrifum af uppkaupum Þórkötlu á íbúðarhúsnæði í Grindavík. Hrein ný íbúðalán námu einungis 2 milljörðum króna þrátt fyrir mikla veltu á íbúðamarkaði. Í tölum Seðlabankans um bankakerfið má sjá að útlán til fyrirtækja í þjónustu tengdri fasteignafélögum jukust um 28 milljarða í maí, mest í tengslum við sölu Grindvíkinga á fasteignum sínum til fasteignafélagsins Þórkötlu.

Hæg­ir á íbúða­upp­bygg­ingu

Á byggingarmarkaði hægir á íbúðauppbyggingu. Fullbúnum íbúðum hefur fjölgað um 3.096 síðustu tólf mánuði og hefur þeim fjölgað hægar frá því um miðjan febrúar þegar 3.446 íbúðir höfðu orðið fullbúnar síðustu tólf mánuði þar á undan.

Aldrei hefur verið byggt jafn lítið af sérbýliseignum og um þessar mundir en einungis 5 prósent af íbúðum á höfuðborgarsvæðinu sem komið hafa inn á markað á þessu ári eru sérbýli. Hlutdeild þeirra af fullkláruðum íbúðum er mun hærri annars staðar á landsbyggðinni eða 38 prósent það sem af er ári. Í báðum tilfellum er þó um að ræða sögulega lágt hlutfall á hvoru svæði fyrir sig. 

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS