20. nóvember 2024
21. nóvember 2024
Mánaðarskýrsla HMS nóvember 2024
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Mánaðarskýrsla HMS fyrir nóvember 2024 er komin út, en hana má nálgast með því að smella á hnappinn hér fyrir neðan. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að fasteignamarkaðurinn hefur kólnað á haustmánuðum, en eftirspurn er hins vegar töluverð í sögulegu samhengi. Leigumarkaðurinn ber aftur merki aukins eftirspurnarþrýstings, þar sem leiguverð hefur hækkað aftur eftir tveggja mánaða lækkun. Íbúðum til útleigu á Airbnb hefur fjölgað á síðustu árum, en samhliða því hefur leigjendum þótt erfiðara að verða sér úti um húsnæði.
Mánaðarskýrslu HMS má nálgast hér
Mánaðarskýrslu HMS má nálgast hér
Myndir að baki mánaðarskýrslunni má nálgast hér
Myndir að baki mánaðarskýrslunni má nálgast hér
Grindavíkuráhrif á fasteignamarkaðinn fjara út í nágrenni höfuðborgarsvæðis
Fasteignamarkaðurinn hefur kólnað á haustmánuðum með færri kaupsamningum heldur en á vor- og sumarmánuðum. Eftirspurn er hins vegar töluverð í sögulegu samhengi, en ekki hefur mælst jafnmikil velta á íbúðamarkaði á föstu verðlagi hér á landi í septembermánuði, ef frá er talið árið 2020.
Framboð íbúða til sölu hefur aukist töluvert á síðustu mánuðum, eftir því sem kaupsamningum hefur fækkað og margar nýjar íbúðir sem seljast hægt hafa komið inn á markaðinn. Rúmlega 2.500 íbúðir eru til sölu á höfuðborgarsvæðinu og hafa þær ekki verið fleiri frá því mælingar hófust fyrir sex árum. Töluverð eftirspurn er hins vegar eftir ódýrum íbúðum, sem bendir til þess að auglýstar íbúðir til sölu séu ekki verðlagðar í samræmi við þarfir markaðarins.
Grindavíkuráhrif á fasteignamarkaðinn eru að fjara út á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess. Samhliða því fækkar dýrum íbúðum á sölu í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og hlutdeild ungra kaupenda á fasteignamarkaði eykst aftur eftir að hafa lækkað töluvert á vor- og sumarmánuðum.
Airbnb-íbúðum fjölgar og flestar þeirra eru skráðar á stórtæka leigusala eða miðlara
Leigumarkaðurinn ber aftur merki aukins eftirspurnarþrýstings, þar sem leiguverð hefur hækkað aftur eftir tveggja mánaða lækkun. Hins vegar hefur greiðslubyrði verðtryggðra lána aukist mun hraðar en leiguverð á síðustu árum, auk þess sem hlutfall leigu af fasteignaverði er enn lágt í sögulegu samhengi.
Airbnb-íbúðir voru rúmlega 9 þúsund í sumar og hefur þeim fjölgað á síðustu árum. Meirihluti þessara íbúða er skráður leigusala eða leigumiðlara sem leigja út fleiri en eina eign. Á meðan skammtímaleiguíbúðum hefur fjölgað bendir leigumarkaðskönnun HMS til að framboð langtímaleiguíbúða sé af skornum skammti.
Bilið hefur breikkað á milli markaðsleigu og leiguverðs íbúða sem ekki eru reknar á hagnaðarforsendum á síðasta ári. Íbúðir í eigu einstaklinga og leigusala eru leigðar út á 250 til 350 þúsund krónum á mánuði, á meðan íbúðir í eigu sveitarfélaga og óhagnaðardrifinna leigufélaga eru leigðar út á 100 til 200 þúsund krónum á mánuði.
Veðsetningarhlutfall nýrra fasteignalána til fyrstu kaupenda fer lækkandi í takt við reglur SÍ
Á lánamarkaði má undanfarin ár greina lækkandi verðsetningarhlutfall fyrstu kaupenda. Rekja má þessa þróun til reglna Seðlabankans sem takmarka mánaðarlega greiðslubyrði við 40 prósent af ráðstöfunartekjum þeirra. Þetta hefur leitt til þess að fleiri þurfa að leggja fram meira eigið fé og taka lægri lán með minna greiðslubyrði til að standast greiðslumat bankanna.
Fyrirtækjum í byggingariðnaði fjölgar
Á byggingarmarkaði hefur fyrirtækjum í byggingariðnaði fjölgað samkvæmt tölum sem HMS hefur fengið frá Hagstofu um nýskráningar og gjaldþrot í greininni. Á þriðja ársfjórðungi ársins urðu 17 fyrirtæki í byggingarstarfsemi gjaldþrota og 141 fyrirtæki nýskráð.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS