24. janúar 2023

Mánaðarskýrsla HMS janúar 2023

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Í nóvember síðastliðnum voru 613 viðskipti með stakar íbúðir á landinu öllu miðað við árstíðaleiðréttar tölur en til samanburðar voru þau 644 í október en urðu flest nærri 1.500 í mars 2021.
  • Þrátt fyrir að flestir mælikvarðar sýni að markaðurinn sé að kólna hratt þá er enn tiltölulega hátt hlutfall íbúða sem seljast á yfirverði. Á höfuðborgarsvæðinu seldust 17,4% íbúða í desember á yfirverði samanborið við 19,3% í nóvember og 23,9% í október.
  • Vísitala leiguverðs hækkaði um 1,6% í desember frá fyrri mánuði. Tólf mánaða hækkun leiguverðs nemur nú 10,3% og hefur ekki verið meiri frá því í byrjun árs 2018.
  • Bankarnir hækkuðu breytilega óverðtryggða vexti á íbúðalánum um 0,25 prósentustig í desember sem viðbragð við jafn hárri hækkun stýrivaxta í nóvember síðastliðnum. Nú eru lægstu vextir hjá bönkunum að meðaltali 7,6%.
  • Í síðustu mánaðarskýrslu var fjallað um hvernig óverðtryggðir vextir væru orðnir óhagstæðari en verðtryggðir gangi verðbólguspá Seðlabankans eftir. Nú þegar óverðtryggðir vextir hafa hækkað meira hefur munurinn aukist.
  • Vinsældir verðtryggðra lána aukast hratt en eru mun meiri hjá bönkunum. Hjá bönkunum eru verðtryggð lán 86% af hreinum nýjum lánum en hjá lífeyrissjóðunum eru þau aðeins 24%.

Íbúðaverð tekið að lækka

Íbúðaverð lækkaði um 0,7% í desember frá fyrri mánuði miðað við vísitölu íbúðaverðs. Þar af lækkaði verð á sérbýli um 2,1% en verð á íbúðum í fjölbýli um 0,3%. Á síðustu þremur mánuðum hefur íbúðaverð lækkað um 0,4% á höfuðborgarsvæðinu sem jafngildir 1,6% á ársgrundvelli. Þetta er í fyrsta sinn síðan í apríl 2019 sem þriggja mánaða breytingin er neikvæð. Í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins lækkaði íbúðaverð um 2,7% á milli mánaða og á síðustu þremur mánuðum hefur það lækkað um 4,4%. Annars staðar á landsbyggðinni hækkaði íbúðaverð um 1,5% á milli mánaða.

Tólf mánaða breyting íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu mælist nú 17,4% miðað við vísitölu söluverðs en 12,9% samkvæmt vísitölu paraðra viðskipta. Stærsti hlutinn af 12 mánaða breytingunni er til kominn vegna hækkana sem áttu sér stað fyrir júlí síðastliðinn. Þannig er 6 mánaða breyting vísitölunnar einungis 2,1% á ársgrundvelli og eins og áður sagði er 3 mánaða breytingin neikvæð um 1,6%.

Fáar íbúðir til sölu með greiðslubyrði undir 250.000

Þegar fólk skoðar íbúðir til sölu skiptir mánaðarleg greiðslubyrði einna mestu máli. Þannig eru færri íbúðir sem standa fólki til boða ef íbúðaverð hækkar eða ef vextir hækka.

Ef fólk ætlar að taka óverðtryggt lán fyrir 80% af kaupverði og hefur greiðslugetu uppá 250.000 kr. eru aðeins um 100 íbúðir til sölu á höfuðborgarsvæðinu sem standa því til boða en þá þurfa íbúðir að kosta innan við 47,5 m.kr.

Í byrjun ársins 2020, áður en COVID19 náði til landsins, voru hins vegar yfir 800 íbúðir til sölu sem þessi greiðslugeta hefði staðið undir. Þetta má sjá á myndinni hér að neðan, á grafinu lengst til vinstri, sem efri mörkin á rauða svæðinu.

Á myndinni er greiðslugetan látin fylgja almennu verðlagi þannig að 250.000 kr. greiðslugeta í dag jafngildir 208.022 kr. greiðslugetu í byrjun árs 2020. Með vaxtalækkunum í byrjun árs 2020 jókst framboð íbúða sem þessi hópur réð við og náði hámarki í maí 2020 í nærri 1.600 íbúðum en þá dugði þessi greiðslugeta fyrir kaupum á 69,2 m.kr. íbúð. Þetta er helsta ástæða þess að eftirspurn eftir íbúðahúsnæði snarjókst við lækkun vaxta.

Nánar er fjallað um greiðslubyrði íbúða til sölu í mánaðarskýrslu HMS.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS