23. apríl 2025
23. apríl 2025
Mánaðarskýrsla HMS apríl 2025
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Mánaðarskýrsla HMS fyrir apríl 2025 er komin út, en hana má nálgast með því að smella á hnappinn hér fyrir neðan. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að á fasteignamarkaði hafi nýjar íbúðir selst hægt og illa, en þær eru á stærðarbili sem endurspeglar ekki eftirspurn síðustu ára. Á lánamarkaði hefur umfang nýrra íbúðalána ekki aukist í takt við fjölgun kaupsamninga, sem bendir til þess að kaupendur fasteigna séu ekki eins háðir lántöku og áður.
Mánaðarskýrsla HMS
Myndir að baki mánaðarskýrslu
Fasteignir hafa verið betri fjárfestingarkostur en innlend hlutabréf
Fasteignamarkaðurinn hefur verið virkur á síðustu vikum og mánuðum, þar sem íbúðum á sölu og kaupsamningum hefur fjölgað. Fleiri íbúðir hafa einnig verið teknar úr sölu, sem bendir til þess að umsvif muni haldast mikil á næstu vikum. Nýjar íbúðir hafa aftur á móti selst hægar og verr en aðrar íbúðir, en þær eru flestar á þröngu stærðarbili sem er ekki í samræmi við eftirspurn síðustu ára.
Íbúðir hafa verið betri fjárfestingarkostur en innlend hlutabréf, þar sem þær hafa hækkað meira í verði og sveiflast minna en úrvalsvísitala Kauphallarinnar. HMS telur þetta vera til marks um óeðlilega stöðu á eignamarkaði hérlendis. Frá árinu 1982 hefur raunverð íbúða að meðaltali hækkað um 3,3 prósent á ári, en þrír stærstu viðskiptabankarnir spá 1,3 til 3,3 prósenta árlegri raunverðshækkun íbúða á tímabilinu 2025-2027.
Margir nýskráðir leigusamningar á fyrsta ársfjórðungi
Á leigumarkaði hefur nýskráðum leigusamningum fjölgað á fyrsta ársfjórðungi, ef miðað er við sama tímabil í fyrra. Leigusalar í flestum nýskráðum leigusamningum einstaklingar og hagnaðardrifin leigufélög, en vægi félagslegra og óhagnaðardrifinna leiguíbúða er lítið í Reykjanesbæ, Garðabæ og Kópavogi..
Aukin ásókn í verðtryggð lán hjá lífeyrissjóðum
Á lánamarkaði hefur umfang nýrra íbúðalána ekki aukist í takt við fjölgun kaupsamninga, sem bendir til þess að kaupendahópur fasteigna hafi ekki verið eins háður lántöku við fjármögnun á fasteignakaupum og áður. Heimili leita í auknum mæli til lífeyrissjóða fyrir verðtryggð lán, þar sem lægstu breytilegu vextirnir eru prósentustigi lægri en hjá bönkunum.Fólksfjölgun í fyrra var í samræmi við húsnæðisáætlanir
Hægir á vexti byggingargeirans
Á byggingarmarkaði hefur hægt á vexti byggingargeirans, þar sem álíka margir starfa í geiranum og á sama tíma í fyrra, auk þess sem hlutdeild hans á vinnumarkaði helst óbreytt á milli ára. Þó eru enn fleiri nýskráningar en gjaldþrot í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, auk þess sem mikið er af lausum störfum í geiranum.
Íbúðum á fyrri framvindustigum íbúðauppbyggingar hefur fækkað talsvert á höfuðborgarsvæðinu. Hins vegar eru vísbendingar um að uppbyggingartími íbúða hafi styst á síðustu misserum og er því meiri óvissa bundin spám HMS um fullbúnar íbúðir til ársins 2027.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS