4. september 2024
22. ágúst 2024
Mánaðarskýrsla HMS ágúst 2024
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Mánaðarskýrsla HMS fyrir ágúst 2024 er komin út, en hana má nálgast með því að smella á hnappinn hér fyrir neðan. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að umsvif á fasteignamarkaði séu töluverð en þau nái að takmörkuðu leyti til ungra kaupenda. Á leigumarkaðnum heldur markaðsverð leigu áfram að hækka töluvert umfram verðbólgu, en meðalleiga hefur lækkað á höfuðborgarsvæðinu vegna fjölda leigusamninga hjá óhagnaðardrifnum leigufélögum.
Mánaðarskýrsluna í heild sinni má nálgast með því að smella hér
Mánaðarskýrsluna í heild sinni má nálgast með því að smella hér
Myndir að baki mánaðarskýrslunni má nálgast með því að smella hér
Myndir að baki mánaðarskýrslunni má nálgast með því að smella hér
Mikil velta og aukin hlutdeild lögaðila á fasteignamarkaði
Fasteignamarkaðurinn var líflegur á nýliðnum ársfjórðungi og hafa kaupsamningar (að teknu tilliti til uppkaupa Fasteignafélagsins Þórkötlu) ekki verið fleiri á öðrum ársfjórðungi að undanskildum árunum 2007 og 2021.
Á höfuðborgarsvæðinu seldust um 19 prósent eigna yfir ásettu verði í júní en þegar fasteignamarkaður er í jafnvægi má gera ráð fyrir að hlutfallið sé um 10 prósent. Íbúðaverð heldur einnig áfram að hækka umfram verðlag, en í júlí síðastliðnum hækkaði vísitala íbúðaverðs um 0,8 prósent á milli mánaða.
Það sem af er ári hafa lögaðilar bætt við sig tvöfalt fleiri íbúðum en einstaklingar, ef frá eru talin íbúðakaup fasteignafélagsins Þórkötlu. Sveitarfélög og óhagnaðardrifin leigufélög voru að baki litlum hluta af fjölgun íbúða í eigu lögaðila.
Fyrstu kaupendum fjölgaði á fyrri hluta ársins, en hlutdeild þeirra í sögulegu samhengi er enn lág. Áhrif hárra vaxta gætir hér en fjölgun íbúða í eigu einstaklinga sem eiga eina íbúð hefur dregist hratt saman á síðustu árum á sama tíma og viðbótaríbúðir hafi auknum mæli runnið til stærri íbúðaeigenda.
Markaðsleiga fjarlægist meðalleigu á höfuðborgarsvæðinu
Leigumarkaðurinn ber enn merki töluverðrar eftirspurnarspennu og hefur markaðsleiga ekki hækkað jafnmikið umfram verbólgu í sjö ár. Alls voru þrír í virkri leit að leiguhúsnæði fyrir hvern nýjan leigusamning á leiguvefnum myigloo.is í júlí, en til samanburðar var einn í virkri leit fyrir hvern nýjan leigusamning í byrjun árs.
Skörp hækkun markaðsleigu á hins vegar ekki við um alla leigjendur. Miklu munar á markaðsleigu og meðalleigufjárhæð, sér í lagi á höfuðborgarsvæðinu, þar sem stór hluti leiguíbúða eru í eigu óhagnaðardrifinna leigufélaga. Á meðan markaðsleiga hefur hækkað hratt á undanförnum misserum hefur meðalleigufjárhæð lækkað á föstu verðlagi á höfuðborgarsvæðinu.
Nauðsynlegar tekjur fyrstu kaupenda hafa hækkað um meira en 70 prósent
Lánamarkaðurinn sýnir fá merki um útbreidda greiðsluerfiðleika þar sem vanskil heimila eru lítil í sögulegu samhengi. Greiðslubyrði margra heimila kemur hins vegar til með að þyngjast á næstu mánuðum þegar fjöldi samninga um fasta vexti íbúðalána rennur út.
Hærri vextir ásamt hærra húsnæðisverði og þrengri lánaskilyrðum hafa aukið nauðsynlegar tekjur fyrstu kaupenda til þess að geta tekið húsnæðislán. Nauðsynlegar tekjur fyrstu kaupenda til þess að geta staðið straum af verðtryggðum lánaafborgunum fyrir meðalíbúð eru nú rúmlega 70% hærri en þær voru í byrjun árs 2020.
Íbúðum hefur ekki fjölgað í takt við íbúa í Reykjavík, Reykjanesbæ og Borgarbyggð
Á byggingarmarkaði hefur fullbúnum íbúðum fjölgað í takt við íbúafjölgun í sveitarfélögunum Hafnarfirði, Kópavogi og Garðabæ á höfuðborgarsvæðinu. Eins hefur verið byggt í samræmi við íbúafjölgun í Árborg, á Akranesi, á Akureyri og í Hveragerði. Hins vegar hefur bil myndast í Reykjavík, Reykjanesbæ og í Borgarbyggð , þar sem íbúðum hefur ekki fjölgað í takt við íbúafjölgun síðustu ára.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS