24. nóvember 2022

Mánaðarskýrsla hagdeildar HMS fyrir nóvember 2022

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Fjöldi íbúða til sölu hefur aukist hratt á höfuðborgarsvæðinu í fyrri hluta nóvember eftir að hafa verið frekar stöðugur í október. Nánar tiltekið var fjöldinn 1.317 í upphafi nóvember en þann 14. nóvember voru þær komnar í 1.470. Íbúðum til sölu hefur því fjölgað um 12% á aðeins 14 dögum.
  • Hver fasteignaauglýsing fær að jafnaði umtalsvert færri smelli nú en áður sem gefur til kynna að færri séu að leita sér að íbúð. Í byrjun febrúar, þegar framboð íbúða var í lágmarki, fékk hver auglýsing á höfuðborgarsvæðinu að meðaltali 149 smelli á dag en í fyrri hluta nóvember var sú tala komin niður í 42.
  • Útgefnir kaupsamningar í september voru 419 talsins á höfuðborgarsvæðinu miðað við árstíðaleiðréttar tölur. Til samanburðar voru þeir 470 í ágúst.
  • Íbúðaverð sem hlutfall af launum er nú orðið hærra en þegar það var hæst um haustið 2007. Þetta á við bæði á höfuðborgarsvæðinu, nágrannasveitarfélögum þess og annars staðar á landsbyggð.
  • Hækkanir leiguverðs eru enn nokkuð hóflegar miðað við vísitölu leiguverðs fyrir októbermánuð. Á síðustu 12 mánuðum hefur leiga hækkað um 8,4% sem er minna en hækkun almenns verðlags.
  • Á undanförnum mánuðum hefur ferðaþjónustan verið að taka við sér að nýju eftir að öllum samkomutakmörkunum var aflétt sem gæti sett aukinn þrýsting á leiguverð. Í október var tólf mánaða uppsafnaður fjöldi gistinátta 8,7 milljónir og fór þá í fyrsta skipti yfir það sem hann hafði verið í lok árs 2019. Nýtingarhlutfall hótelherbergja og rúma hefur aldrei mælst svo hátt í septembermánuði.
  • Um 28% af ráðstöfunartekjum leigjenda fer að jafnaði í leigu sem er fjórða hæsta hlutfallið í löndum OECD. Það er þó mjög svipað hlutfall og á hinum Norðurlöndunum enda eru aðstæður hér að mörgu leyti svipaðar. Þetta eru til að mynda allt þjóðir þar sem tekjur eru háar og tekjujöfnuður mikill í samanburði við önnur lönd.
  • Framlag húsnæðisliðar til verðbólgu minnkaði í október annan mánuðinn í röð og mældist 4,4 prósentustig samanborið við 4,8 prósentustig í ágúst. Verði fasteignaverðshækkanir áfram hóflegar getur það verið einn af þeim þáttum sem mun draga niður verðbólgu á næstu misserum.

Hæg­ir á hækk­un fast­eigna­verðs

Helstu vísar um stöðu mála á fasteignamarkaði gefa til kynna að eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði sé enn að dragast saman. Kólnun á fasteignamarkaði þýðir þó ekki að hann sé frosinn eins og á árunum eftir hrun heldur virðast aðstæður líkari því sem var 2019 og 2020.

Íbúðaverð hækkaði um 0,6% á milli mánaða á höfuðborgarsvæðinu miðað við vísitölu íbúðaverðs, en þar af lækkaði verð á sérbýli um 0,7% en verð á fjölbýli hækkaði um 0,9%. Tólf mánaða hækkun vísitölunnar mælist 21,5% fyrir höfuðborgarsvæðið og þar af hækkuðu íbúðir í fjölbýli um 21,5% og sérbýli um 22,5%.

Þótt það dragi hægt úr 12 mánaða verðhækkunum þá er ljóst að dregið hefur verulega úr þeim þegar horft er yfir styttra tímabil. Þannig mælist sex mánaða hækkun vísitölunnar 7,5% á höfuðborgarsvæðinu sem jafngildir 15,5% hækkun á ársgrundvelli samanborið við 20,4% hækkun í september og 25,9% í ágúst. Sé horft á þriggja mánaða hækkun vísitölunnar hefur enn frekar dregið úr krafti hennar. Þannig nam hún 3,9% á ársgrundvelli í september en hafði verið 6,0% í október og 28,3% í júlí.

Hlutfall íbúða sem selst yfir ásettu verði hefur farið ört lækkandi frá því í júní síðastliðnum. Hlutfallið mældist 24,6% á höfuðborgarsvæðinu í október samanborið við 32,9% í september og 46,6% í júlí og hefur ekki mælst svo lágt síðan í október 2020. Þar af seldust 26,2% íbúða í fjölbýli yfir ásettu verði og 19,1% sérbýla.

Mánaðarskýrsluna í heild sinni má nálgast hér

Mánaðarskýrsluna í heild sinni má nálgast hér

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS