23. desember 2024
24. nóvember 2023
Mánaðarskýrsla hagdeildar HMS fyrir nóvember 2023
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Mánaðarskýrsla hagdeildar HMS fyrir nóvember 2023
- Vísbendingar eru um aukin viðskipti með íbúðir en 784 kaupsamningar um íbúðarhúsnæði voru gerðir í september og voru þeir 110 fleiri en í ágústmánuði. Rekja má fjölgun þeirra til fjölgunar kaupsamninga á höfuðborgarsvæðinu.
- Ungir kaupendur og sala á litlum íbúðum virðast hafa mest áhrif á fjölgunina.
- Þrátt fyrir þetta heldur framboð íbúða áfram að aukast og eru nú um 3.500 íbúðir til sölu á landinu öllu þar af rúmlega 2.200 á höfuðborgarsvæðinu. Um helmingur íbúða til sölu í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi eru nýjar íbúðir.
- Vísbendingar eru um að skammtímaleiga fækki íbúðum sem eru til langtímanota þar sem fjöldi heimagistingaleyfa hefur vaxið mikið á þessu ári.
- Uppgreiðslur óverðtryggðra lána aukast mikið milli mánaða og eru nú um tvöfalt meiri en uppgreiðslur verðtryggðra lána voru mestar eftir vaxtalækkanir í heimsfaraldrinum.
- Enn hægir á framkvæmdum og leiðir það til þess að fleiri íbúðir teljast nú í byggingu og eru flestar þær íbúðir á höfuðborgarsvæðinu. Samtals eru tæplega fjögur þúsund íbúðir á sama framvindustigi og þær voru í mars samkvæmt septembertalningu HMS á fjölda íbúða í byggingu.
Meira jafnvægi að komast á fasteignamarkaðinn
Merki eru um að meira jafnvægi sé að komast á fasteignamarkaðinn. Fleiri íbúðir hafa verið teknar úr sölu síðustu tvo mánuði en síðasta ár þar á undan. Samkvæmt skammtímavísi hagdeildar voru 668 fasteignir teknar úr sölu á höfuðborgarsvæðinu í október sem er lítils háttar samdráttur frá því sem var í september þegar 717 fasteignir voru teknar úr sölu.
Eins og fram kom í síðustu mánaðarskýrslu hagdeildar HMS fylgjast tölur um fjölda íbúða sem teknar eru úr birtingu af auglýsingasíðum fasteigna gjarnan að við fjölda kaupsamninga næstu mánuði þar á eftir vegna þess tíma sem tekur að ganga frá kaupsamningi og þinglýsa. Miðað við þann fjölda íbúða sem teknar voru úr birtingu á fasteignir.is má því búast við að fjöldi viðskipta í október verði svipaður því sem var í septembermánuði. Sé auglýsing tekin úr birtingu merkir það yfirleitt að viðkomandi íbúð sé komin í söluferli, en einnig getur það verið vegna þess að eigandi íbúðar hættir við að selja hana.
Uppgreiðslur óverðtryggðra lána aukast mikið
Hrein ný íbúðalán til heimila námu 12,9 ma. kr. í septembermánuði. Ný verðtryggð íbúðalán til heimila námu 30,1 ma. kr. og hafa þau verið jákvæð undanfarið rúmt ár. Uppgreiðslur óverðtryggðra lána aukast mikið en alls voru 17,2 ma. kr. af óverðtryggðum lánum greidd upp eða 1,3% allra óverðtryggðra lána til heimila. Uppgreiðslur óverðtryggðra lána eru nú um tvöfalt meiri en uppgreiðslur verðtryggðra lána voru mestar eftir vaxtalækkanir í heimsfaraldrinum. Það sem af er ári hafa lífeyrissjóðir lánað umfram uppgreiðslur og aðrar umframgreiðslur fyrir 49,6 ma. kr. samanborið við 41 ma. kr. sem bankar hafa lánað í formi nýrra íbúðalána til heimila. Hlutdeild lífeyrissjóða á íbúðalánamarkaði hefur því vaxið á árinu úr 22,8% í byrjun árs og er nú 24% en hæst fór hlutdeild þeirra í útistandandi íbúðalánum til heimila í 29,6% í apríl 2020.
Mánaðarskýrsluna í heild sinni má nálgast hér
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS