14. maí 2020

Mánaðarskýrsla hagdeildar HMS fyrir maí 2020

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

Fleiri leigjendur í fasteignahugleiðingum og húsnæðisöryggi eykst

Fleiri leigjendur í fasteignahugleiðingum og húsnæðisöryggi eykst

  • Það mun taka einhvern tíma að greina bein áhrif af COVID-19 faraldrinum á húsnæðismarkað vegna tafar í hagtölum.
  • Enn mælast hógværar hækkanir á fasteignaverði á landinu miðað við 12 mánaða breytingu vísitölu paraðra viðskipta í mars.
  • Eftirspurn fasteigna mældist þó nokkur í mars en lægra hlutfall nýbygginga seldist undir ásettu verði m.v. kaupsamninga í janúar og febrúar og hærra hlutfall seldist á yfirverði.
  • Mun fleiri töldu hagkvæmt að kaupa sér íbúðarhúsnæði í apríl s.l. en á sama tíma í fyrra skv. nýrri könnun sem skýrist líklegast af lækkun vaxta á tímabilinu.
  • Einstaklingar sem búa í leiguhúsnæði eða í foreldrahúsum telja líklegra nú að þeir kaupi sér fasteign á næstu 6 mánuðum heldur en síðastliðin þrjú ár.
  • Færri leigjendur telja líklegt að þeir verði áfram á leigumarkaði eftir 6 mánuði í apríl m.v. mælingu í janúar.
  • Á meðan framboð á leigumarkaði eykst en leigjendum fjölgar ekki að sama skapi gæti farið svo að leiguverð lækki á næstu mánuðum.
  • Töluverð aukning mælist á milli ára meðal leigjenda sem telja sig búa við húsnæðisöryggi.
  • Nýskráningum fyrirtækja í byggingariðnaði fækkar og gjaldþrotum fjölgar samhliða minnkandi umsvifum í greininni.

Horfur á húsnæðismarkaði

Það mun taka einhvern tíma að greina bein áhrif af COVID-19 faraldrinum á húsnæðismarkað vegna töluverðrar tafar í hagtölum. Áhrifin á húsnæðismarkað munu einkum ráðast af því hvernig mannfjöldi og tekjur munu þróast. Þróun alþjóðlegrar eftirspurnar mun hafa mikil áhrif á þessa þætti en mikil óvissa ríkir um framvindu efnahagsmála á næstu mánuðum. Gangi forsendur opinberra þjóðhagsspáa eftir eru líkur á því að áhrifin verði talsverð til skamms tíma en ekki megi vænta þess að miklar sviptingar verði á húsnæðismarkaðnum til lengri tíma litið. Ef byggingarframkvæmdir íbúðarhúsnæðis halda áfram að dragast saman er hætta á að íbúðaskortur myndist innan fárra ára þegar hagkerfið tekur við sér á ný.

Fasteignamarkaður

Fasteignaverð hækkaði um 2,6% á höfuðborgarsvæðinu, 3,9% í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins og 2,6% annars staðar á landinu í mars m.v. sama mánuð í fyrra þegar litið er á pöruð viðskipti eingöngu en verðáhrif nýbygginga eru undanskilin. Til samanburðar hækkaði fasteignaverð um 3,6% á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt vísitölu Þjóðskrár í mars.

Samanburður á söluverði og ásettu verði íbúða gefur til kynna að eftirspurn eftir húsnæði hafi verið þó nokkur að undanförnu. Um 38% af nýbyggingum seldustu undir söluverði m.v. tölur í mars síðastliðnum miðað við 44% í febrúar og um 48% í janúar. Hefur hlutfallið ekki verið lægra síðan í ágúst 2018. Að sama skapi seldust 14,6% nýrra íbúða yfir ásettu verði miðað við 7,8% í febrúar og þarf að leita aftur til 2016 til þess að finna hærra hlutfall. Þó ber að hafa í huga að viðskipti sem gengið er frá í mars geta verið vegna íbúða sem fóru í söluferli nokkrum mánuðum fyrr.

Mun fleiri töldu hagkvæmt að kaupa sér íbúðarhúsnæði í apríl s.l. en á sama tíma í fyrra skv. nýrri könnun HMS og Zenter sem skýrist líklegast af lækkun vaxta á tímabilinu. Niðurstöður könnunarinnar benda einnig til þess að einstaklingar sem búa í leiguhúsnæði eða í foreldrahúsum telji líklegra nú að þeir kaupi sér fasteign á næstu 6 mánuðum heldur en síðastliðin þrjú ár.

Leigumarkaður

Niðurstöður könnunar HMS og Zenter sýna almennt minnkandi líkur á því að fólk sjái sig inni á leigumarkaðnum á komandi mánuðum en mælst hefur í fyrri könnunum á undanförnum þremur árum. Um 15% landsmanna telja líkur á því að vera á leigumarkaði eftir hálft ár samanborið við 18% að meðaltali í fyrri mælingum. Þegar niðurstöður eru skoðaðar nánar eftir búsetu sést að 87% þeirra sem eru þegar á leigumarkaði telja líkur á að vera þar áfram á næstu 6 mánuðum, en það hlutfall mældist 92% í janúar síðastliðnum. Um 10% einstaklinga 18 ára og eldri sem búa í foreldrahúsum telja líklegt að koma til með að færa sig yfir á leigumarkað á næstu mánuðum. Það hlutfall var hins vegar nokkru hærra í byrjun árs eða um 14%. Á meðan framboð eykst en leigjendum fjölgar ekki að sama skapi gæti farið svo að leiguverð lækki á næstu mánuðum.

Marktæk breyting mælist í upplifun fólks á húsnæðisöryggi frá því í fyrra en núna telur 91% þjóðarinnar sig búa við húsnæðisöryggi. Fyrir ári síðan var hlutfallið samtals 85% og því hefur húsnæðisöryggi landsmanna almennt aukist á milli ára. Mest er breytingin á meðal leigjenda en 65% einstaklinga á leigumarkaði telja sig búa við húsnæðisöryggi í apríl samanborið við 51% í mars í fyrra.

Byggingamarkaður

Þörf eftir húsnæði vegna COVID-19 hefur enn sem komið er ekki breyst svo nokkru nemi, sé horft til lýðfræðilegrar þróunar. Ekki er útlit fyrir að hún muni taka miklum breytingum til meðallangs- eða langs tíma sé miðað við áður útgefnar þjóðhagsspár sem gera ráð fyrir töluverðum viðsnúningi á næsta ári.

Nýskráningum fyrirtækja innan byggingageirans hefur farið fækkandi og gjaldþrotum fjölgað. Nýskráningar hafa dregist saman um tæp 30% séu tölur í marsmánuði bornar saman við tölur á sama tíma í fyrra og rúm 20% á fyrsta ársfjórðungi samanborið við fyrsta ársfjórðung 2019. Samhliða auknum gjaldþrotum og minnkandi umsvifum hefur atvinnuleysi í greininni aukist.

Skýrsluna má lesa í heild sinni hér: Húsnæðismarkaðurinn maí 2020

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS