22. apríl 2025
9. febrúar 2022
Mánaðarskýrsla hagdeildar HMS fyrir febrúar 2022
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Árshækkun íbúðaverðs mælist nú 16,6% á landinu öllu. Sérbýli á höfuðborgarsvæðinu leiða hækkunina.
- Árshækkun íbúðaverðs mælist nú 16,6% á landinu öllu. Sérbýli á höfuðborgarsvæðinu leiða hækkunina.
- Meðalkaupverð hefur hækkað um 5 m.kr. á aðeins tveimur mánuðum á höfuðborgarsvæðinu en það var 68,2 m.kr. í desember sl. samanborið við 63,2 m.kr. í október sl.
- Íbúðum til sölu heldur áfram að fækka á milli mánaða og birgðatími þeirra nú 20 dagar.
Mikill samdráttur í framboði íbúða en salan haldist merkilega góðEnn dregur úr fjölda íbúða til sölu en í byrjun febrúar voru þær aðeins 1.031 talsins sem er fækkun um 4% á milli mánaða og um 74% færri íbúðir en þegar mest lét í maí árið 2020 þegar nærri 4.000 íbúðir voru til sölu. Á síðustu mánuðum hefur samdrátturinn verið mestur á höfuðborgarsvæðinu en þar voru 440 íbúðir til sölu í byrjun febrúar en framboðið var um 490 íbúðir í byrjun janúar sl. og ríflega 600 íbúðir í byrjun desember. Framboð íbúða til sölu hefur því dregist saman um 27% á síðustu tveimur mánuðum. Sérstaklega hefur dregið úr framboði nýrra íbúða en þær voru tæplega 70 í byrjun febrúar sem er verulegur samdráttur frá því í maí 2020 þegar þær voru um 900 talsins rétt áður en lækkunartakturinn byrjaði.
Þrátt fyrir mikinn samdrátt í framboði íbúða hefur salan haldist merkilega góð. Í raun var um að ræða næst umsvifamesta desembermánuð á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu miðað við fjölda útgefna kaupsamninga frá því að mælingar hófust árið 2002. Þrátt fyrir að dregið hafi nokkuð úr umsvifum þegar líða tók á vorið var met slegið bæði í fjölda kaupsamninga og í veltu á síðasta ári. Alls var um 14.200 kaupsamningum þinglýst samanborið við um 12.500 árið 2020 og tæplega 13.000 árið 2007. Þá jókst veltan enn meira á milli ára, enda hefur meðalkaupverð farið hækkandi. Á síðasta ári var veltan um 795 ma.kr. samanborið við um 655 ma.kr. árið 2020 og um 617 ma.kr. árið 2007.
Birgðatími íbúða til sölu 20 dagarBirgðatími íbúða á höfuðborgarsvæðinu í byrjun janúar sl. var aðeins 0,9 mánuðir fyrir sérbýli og 0,7 mánuðir fyrir íbúðir í fjölbýli. Með öðrum orðum þá tæki rúma 20 daga að selja það magn af íbúðum sem til var í byrjun janúar ef að meðalsöluhraðinn væri sá sami og í mánuðinum á undan. Í Bandaríkjunum hefur það verið notað sem þumalputtaregla að þegar birgðatími fer undir fjóra mánuði er talað um seljendamarkað. Á Íslandi þyrfti hlutfallið líklega að vera lægra til þess að teljast seljendamarkaður en í hefðbundnu árferði fer birgðatíminn á Íslandi sjaldan undir 2 mánuði.
Fasteignaverð heldur áfram að hækkaFasteignaverð í desember hækkaði um 1,5% á milli mánaða á landinu öllu miðað við vísitölu söluverðs HMS. Á síðustu þremur mánuðum hefur það hækkað um 3,4% og á síðustu tólf mánuðum um 16,6%. Á höfuðborgarsvæðinu hækkuðu íbúðir í fjölbýli um 1,0% á milli mánaða en sérbýli um 2,3%. Tólf mánaða hækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu er 15,5% fyrir íbúðir í fjölbýli en 21,0% fyrir sérbýli. Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins var tólf mánaða hækkun íbúðaverðs í desember litlu minni eða 16,5% og annars staðar á landsbyggðinni nam hún 11,7%.
Eftirspurnarþrýstingur enn til staðarÍ desember sl. seldust 39,6% íbúða á landinu öllu yfir ásettu verði og hefur hlutfallið aldrei verið hærra. Til samanburðar seldust 36,4% íbúða yfir ásettu verði í nóvember og 33,7% í október. Fyrir íbúðir í fjölbýli er um nýtt met að ræða í öllum landshlutaflokkum, þ.e. á höfuðborgarsvæðinu (43,2%), nágrannasveitarfélögum þess (25,5%) og annars staðar á landsbyggðinni (33,0%) miðað við þriggja mánaða meðaltal. Hlutfall sérbýla sem seldist yfir ásettu verði dróst lítilega saman á milli mánaða á höfuðborgarsvæðinu og nágrannasveitarfélögum þess en er þó enn einnig í hæstu hæðum.
Eftirspurnarþrýstingur enn til staðarÍ desember sl. seldust 39,6% íbúða á landinu öllu yfir ásettu verði og hefur hlutfallið aldrei verið hærra. Til samanburðar seldust 36,4% íbúða yfir ásettu verði í nóvember og 33,7% í október. Fyrir íbúðir í fjölbýli er um nýtt met að ræða í öllum landshlutaflokkum, þ.e. á höfuðborgarsvæðinu (43,2%), nágrannasveitarfélögum þess (25,5%) og annars staðar á landsbyggðinni (33,0%) miðað við þriggja mánaða meðaltal. Hlutfall sérbýla sem seldist yfir ásettu verði dróst lítilega saman á milli mánaða á höfuðborgarsvæðinu og nágrannasveitarfélögum þess en er þó enn einnig í hæstu hæðum.
Mánaðarskýrsluna í heild sinni má nálgast hér.Nánari upplýsingar veitir Kári S Friðriksson, hagfræðingur HMS, í síma 693 5934
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS