26. febrúar 2025
27. febrúar 2025
Lögbýlaskrá 2024 er komin út
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Lögbýlaskrá fyrir árið 2024 er komin út, en samkvæmt henni voru gerðar alls 16 breytingar á árinu 2024, þar sem 14 ný lögbýli voru skráð og tvö lögbýli voru afskráð. Hægt er að nálgast skrána í PDF-formi með því að smella á hnappinn hér að neðan, en hægt er að smella á þennan hlekk til að nálgast lögbýlaskrána í CSV-formi.
Lögbýlaskrá fyrir 2024 má nálgast hér
Lögbýlaskrá er gefin út árlega fyrir allt landið á grundvelli upplýsinga úr þinglýsingabók og fasteignaskrá. Útgáfan er á vegum Matvælaráðuneytisins en samkvæmt 2. mgr. 26. gr. jarðalaga nr. 81/2004 er ráðuneytinu heimilt að fela öðrum aðila að annast gerð lögbýlaskrárinnar.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun annast útgáfu lögbýlaskrár þar sem haldið er utan um skrána í réttindahluta fasteignaskrár sem stofnunin meðal annars rekur.
Samkvæmt jarðalögum teljast þau lögbýli sem hafa fengið útgefið sérstakt leyfi frá ráðherra um lögbýlisrétt og skal því leyfi þinglýst. Við þinglýsinguna fær viðkomandi eign sérstaka merkingu í þinglýsingarhluta fasteignaskrár og birtist í næstu lögbýlaskrá sem gefin verður út.
Skránni er skipt eftir sveitarfélaganúmerum. Í fremsta dálki er að finna upplýsingar um heiti eignarinnar og þar fyrir aftan landnúmer hennar. Þar næst birtast upplýsingar um hvort eignin sé merkt í eyði og er sú merking sótt í fasteignaskrána. Aftasti dálkurinn inniheldur upplýsingar um landeigendur og ábúendur og eru landeigendur merktir með bókstafnum E og ábúendur með bókstafnum Á. Skráin sem hér er birt miðast við síðustu áramót og birtast hér þær eignir sem voru skráð lögbýli þann 31. desember 2024.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS