20. desember 2024
21. febrúar 2024
Leiguvísitalan hækkaði um 0,3 prósent á milli mánaða
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu var 105,9 í janúar 2024 og hækkaði hún um 0,3 prósent á milli mánaða. Á ársgrundvelli hefur vísitalan hækkað um 9,0 prósent frá því í maí í fyrra, sem er rúmlega tvöfalt hærra en sambærileg hækkun vísitölu kaupverðs á höfuðborgarsvæðinu.
Í janúar síðastliðnum tók HMS nýja vísitölu leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu í notkun, en fyrsti útreikningur hennar miðast við maí 2023 og er gildi hennar þá 100. Vísitalan, sem sjá má á mynd hér að ofan, sýnir breytingar á vegnu meðaltali fermetraverðs. Stuðst er við leigusamninga síðastliðinna tveggja mánaða við útreikning vísitölunnar.
Frá maí síðastliðnum hefur vísitalan hækkað um 5,9 prósent, sem samsvarar 9 prósenta hækkun á ársgrundvelli. Á sama tíma hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 4,2 prósent á ársgrundvelli, samkvæmt nýjustu gildum frá vísitölu kaupverðs íbúða á höfuðborgarsvæðinu.
Forsendur
Byggt er á leigusamningum um hefðbundnar íbúðir sem eru í eigu einstaklinga og fyrirtækja sem rekin eru í hagnaðarskyni. Reiknað er meðalfermetraverð í 6 flokkum eftir herbergjafjölda og niðurstöður vegnar saman með veltu síðustu 12 mánaða. Stuðst er við leigusamninga síðastliðna tvo mánuði, þannig byggir vísitalan í desember t.d. á leigusamningum í nóvember og desember.
Birtingu vísitölunnar er ætlað að varpa ljósi á þróun leiguverðs samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir á hverjum tíma. HMS áskilur sér rétt til að endurskoða vísitöluna aftur í tímann í ljósi fyllri gagna eða fágaðri aðferðafræði. Vísitalan er ekki ætluð til að verðtryggja fjárskuldbindingar.
Öllum eru heimil afnot af fréttinni og meðfylgjandi gögnum en vinsamlegast getið heimildar.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS